Fréttir

Torfi Björnsson

Knattspyrna | 22.08.2023

Það eru líklega fáir sem hafa gert jafmikið fyrir ísfirska knattspyrnu og Torfi Björnsson – og talað jafn lítið um það. Fyrir þá sem nú eru í blóma lífsins væri auðveldlega hægt að vera þeirrar skoðunar að Torfi hafi mætt á einn og einn leik og látið þar við sitja, en svo er aldeilis ekki. Hann byrjaði strax ungur að árum að vasast kringum fótbolta en varð ungur sjómaður og svo skipstjóri og þá fór að þrengja að áhugamálinu. Hann tók samt til ýmissa ráða. Skipverjum hans fannst hann oft fara skrambi stutta túra en þá vildi Torfi komast í land til að ná leik, gjarnan þegar strákarnir hans voru að spila en allir voru synir hans viðloðandi fótboltann, Jóhann, Ómar, Örn og Gunnar. Á áttunda áratugnum tók hann sér meira að segja frí frá sjónum í nokkra daga til að tyrfa Torfnesvöll en það þótti fáheyrt á þeim tíma. Þegar ÍBÍ komst svo í 1. deild í upphafi níunda áratugarins fór Torfi á fullt; hann fékk leyfi frá sjávarútvegsráðherra til að landa rækju af sínum bát og tveimur öðrum og að andvirði aflans rynni til knattspyrnuliðs ÍBÍ. Var það grundvöllur rekstrarins sem varð gríðarþungur þetta ár sem liðið var í efstu deild og reið baggamuninn í því að gera það mögulegt. Við sem ekki þekkjum til þessa málaflokks gerum okkur kannski ekki grein fyrir því, en þetta eitt er risavaxið og nánast óskiljanlegt að hann skuli hafa haft þetta í gegn.

Í seinni tíð má nefna að Torfi var ötull talsmaður og helsti stuðningsaðili að byggingu stúku við Torfnesvöllinn og enn reið hans þáttur baggamuninn. Þar eiga þau hjónin heiðurssæti og lögðu hornstein að stúkunni við vígslu hennar, allt í rökréttu framhaldi af stuðningi við framkvæmdina. Þó að það hafi ekki farið hátt, má leiða að því líkum að Torfi hafi unnið af miklu kappi að framgangi fótboltans undir ratsjá okkar hinna og þá í gegnum afkomendurna, sem margir hverjir iðkuðu, iðka og munu iðka fótbolta af sama kappi og Torfi Björnsson studdi við hann.

Þessi ötuli talsmaður og stoð íþróttarinnar lést þann 14. ágúst síðastliðinn en minningin mun lifa um langa tíð. Stjórn knattspyrnudeildar Vestra sendir ættingjum og aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Torfa Björnssyni varð líklegast aldrei fullþakkað fyrir sinn risahlut í þessum túr.

 

Deila