Fréttir

Upphafið: Tímabilið 2006 og 2007

Knattspyrna | 30.08.2011 Ef leitað er eftir nafni BÍ/Bolungarvíkur í eldri fyrirsögnum á vef fotbolta.net má finna ansi skemmtilegar fréttir um liðið á síðustu árum. Sumar góðar ásamt nokkrum vafasömum sem birtust þegar liðið lék í þriðju deild. Bibol.is ætlar að birta stutt ágrip af bráðskemmtilegri sögu félagsins sem telur sjötta tímabilið í dag.

Árið 2006
Hópur BÍ/Bolungarvíkur:
Fyrsta árið hjá sameinuðu liði Ísfirðinga og Bolvíkinga. Jónas Leifur Sigursteinsson tók við þjálfun liðsins og honum til halds og traust var fengin Jón Steinar Guðmundsson. Fyrsti leikur liðsins var bikarleikur gegn Hvíta-Riddaranum frá Mosfellsbæ. Hann var leikinn á gervigrasvellinum á Torfnesi og tapaðist því miður. Liðið hafnaði um miðja töflu í B-riðli 3.deildar þetta árið. Var lengi vel í toppbaráttu en gaf eftir á lokasprettinum. Með liðinu lék einn besti markvörður sem spilað hefur á landinu, það var serbinn Ljubo Kovacevic sem spilar í dag með liði FK BSK Borča í efstu deild í Serbíu. Þarna má einnig sjá að undirritaður er með eitt mark og aðeins tvö rauð spjöld sem verður að teljast til tíðinda. Ef horft er á hópinn þá kemst maður ekki hjá því að spyrja sjálfan sig hvar allir þessir Ísfirðingar og Bolvíkingar sem þarna spiluðu eru að gera í dag? Sex leikmenn úr hópnum eru að spila í 1. deild í dag. Annars var engin sérstök frétt skrifuð um okkur þetta árið.

Lokahóf hjá BÍ/Bolungarvík: Frétt um lokahóf liðsins þar sem veitt voruc meðal annars verðlaun fyrir besta leikmanninn.

Árið 2007
Hópur BÍ/Bolungarvíkur:
Liðið að mestu skipað sömu leikmönnum og árinu á undan. Farið var í æfingarferð til Algarve þar sem meðal annars var leikinn æfingarleikur við Fjölni sem voru þá í fyrstu deild. Í leiknum fengum við Þórð Ingason að láni vegna þess að okkur vantaði markmann og síðan var Pétur Georg Markan að leika þarna með Fjölni. Þeir spila báðir með BÍ/Bolungarvík í dag. Við töpuðum þeim leik 5-2 eftir að Gunnar Már hafði komið okkur yfir. Guðmundur Guðjónsson skoraði síðan mjög frægt seinna mark okkar sem Guðmundur setti sjálfur í video og skellti á youtube.com. Liðið náði öðru sæti í riðlinum og fór í úrslitakeppni 3. Deildar. Tapaði þar fyrir Gróttu en fór síðan í umspil um fimmta sætið því fimm lið fóru upp þetta ár vegna fjölgunar í 12 liða deild. Við mættum fyrst Huginn frá Seyðisfirði og unnum þá í tveimur mögnuðum leikjum en töpuðu síðan fyrir Tindastól sem fór upp um deild í leik um fimmta sætið.

Pétur skoraði átta þegar BÍ/Bolungarvík burstaði Snæfell: Stærsti sigur BÍ/Bolungarvíkur frá upphafi er 14-0 sigur á Snæfell þetta sumarið. Markahrókurinn Pétur Geir Svavarsson frá Bolungarvík skoraði heil átta stykki. Fyrri hálfleikurinn fór 11-0 en sá síðari aðeins 3-0.

BÍ/Bolungarvík fær Kamerúna: Julien Mayada frá Kamerún var fengin frá Þýskalandi um mitt sumarið til að styrkja liðið fyrir komandi toppbaráttu í þriðju deildinni. Það kom svo á daginn að þetta var ekkert meira en Nígeríusvindl(Kamerúnsvindl?) því leikmaðurinn tók hjólhestapyrnu í fyrstu vikunni og meiddi sig í hendinni. Hann var settur í fatla og sagðist vera sárþjáður. Seinna meir sást hann á diskóteki á Krúsinni að dansa með höndina upp í loft og með fatlan geymdan til hliðar á öxlinni. Hann var sendur rakleitt heim aftur.

Tindastóll í 2. Deild eftir sigur á BÍ/Bolungarvík: Ekkert við þetta að bæta

Lokahóf hjá BÍ/Bolungarvík

Slobodan Milisic tekur við BÍ/Bolungarvík:
Eftir sumarið tók Jónast Leifur sér frí frá þjálfun og við starfi hans tók Slobodan Milisic sem stjórnaði liðinu sumarið 2008

Víðir sigraði BÍ/Bolungarvík með 49 marka mun í Futsal: Laugardagurinn 1. desember 2007 var skrýtinn dagur í sögu félagsins. Liðið var skráð af einhverjum í íslandsmótið í Futsal þar sem einhverjir spiluðu fótbolta undir nafni félagsins og gjörsamlega vægt til orða tekið, gerðu upp á bak. Það er samt gaman að rifja þetta upp og muna hvaða menn þetta voru sem tóku þátt í þessari vitleysu. Af virðingu við félagið þá nefni ég engin nöfn.

.....Framhald Deila