Fréttir

Vel heppnað 77.ársþing KSÍ um liðna helgi á Ísafirði

Knattspyrna | 28.02.2023

77. ársþing KSÍ var haldið á Ísafirði dagana 24. og 25. febrúar sl. Hófst það á málþingi um stöðu knattspyrnunnar á landsbyggðinni og áherslum í starfi landsliða sem var vel sótt og umræður líflegar.

Þingið sjálft hófst síðan kl. 11 laugardaginn 25. febrúar í íþróttahúsinu við Torfnes og voru þinggestir rúmlega 100 talsins sem er óvenju fámennt, en auðvitað gerir fjarlægðin fjöllin blá og langt til Ísafjarðar og hafði það talsverð áhrif á ferðaskrekkta fulltrúa. Þingið fór vel og friðsamlega fram en þar bar helst til fregna að gera þurfti nokkrar lagabreytingar að kröfu UEFA og fór það í gegn án mikilla mótbára. Að öðru leyti voru störf nokkuð hefðbundin og framíköll fá.

Að þingi loknu var haldið samsæti fyrir þingfulltrúa og gesti þar sem fram var reiddur dýrindis matur. Þar bar líka við að í þetta sinn, sem er nokkuð sögulegt, var veittur heiðurskross KSÍ og, eins og Klara Bjartmarz, framkvæmdastýra sambandsins sagði við það tækifæri: Það þarf talsvert til að hljóta slíka vegtyllu. Kom það engum á óvart að loksins var komið að okkar manni, hinum ötula talsmanni knattspyrnunnar á öllum sviðum (og miklu fleiri íþrótta, ef út í það er farið) – Jóhanni Króknes Torfasyni - Jóa Torfa, að taka við gullmerkinu úr hendi formannsins Vöndu Sigurgeirsdóttur. Jói hefur verið óþreytandi í starfi fyrir íþróttina á Vestfjörðum og landsvísu og til marks um sannleiksgildi þessa vals, risu allir viðstaddir úr sætum og hylltu viðtakandann með dynjandi lófataki enda ekki nokkur fótboltaunnandi á Íslandi sem ekki hefur heyrt um Jóa Torfa.

Knattspyrnudeild Vestra vill þakka stjórn og starfsfólki KSÍ það traust að hafa leyft okkur að halda 77. ársþingið hér fyrir vestan og öllum þeim sem heiðruðu okkur með heimsókn hingað og návist meðan á dagskrá þingsins stóð. Við þökkum líka öllum þeim sem að samkomuhaldinu komu. Verkefnið var stórt en í hverju verkefni var vel valið fólk sem sá til þess að allt saman tókst þetta virkilega vel.

Kærar kveðjur frá Stjórn Vestra og þakkir fyrir ánægjulegt þing,  uppörvandi og skemmtileg samskipti og umræður og frábæra skemmtun.

Deila