Yngstu flokkar knattspyrnudeildar Vestra hittust á Vestradeginum í gær í blíðskaparveðri. Gleðin var við völd á Torfnesinu þar sem hlaðið var í eina hópmynd af þeim sem gátu mætt og svo í nokkrar liðsmyndir. Síðan voru knattþrautir undir stjórn Jónasar Leifs yfirþjálfara og annarra þjálfara með hjálp frá leikmönnum meistaraflokks karla og 2. og 3. flokks kvenna sem nú tekur þátt í Íslandsmóti í fyrsta sinn í talsverðan tíma. Þá fjölmenntu foreldrar til að fylgjast með krökkunum í góða veðrinu.
Eftir knattþrautir var haldið að grillinu þar sem hesthúsaðar voru 298 pylsur í brauði, auk annars eins magns af safa og íspinnum.
Nú er fótboltasumarið því opinberlega komið og allir komnir út í góða veðrið og ferska loftið. Margir nýir iðkendur létu sjá sig og við bjóðum þá hjartanlega velkomna í Vestrafjölskylduna. Þeir sem hafa hug á að mæta en komust ekki í dag þurfa ekki að láta hugfallast því að allir eru velkomnir hvenær sem er til að kynnast hinni fögru íþrótt.
Deila