Fréttir

Yfirþjálfari ráðinn til félagsins

Knattspyrna | 17.12.2010 Jón Hálfdán Pétursson hefur verið ráðinn sem yfirþjálfari yngri flokka BÍ88. Í því felst að hann skal hafa yfirumsjón með starfi yngri flokka auk umsjónar og aðlögunar í starfi annarra þjálfara félagsins. Þar telst eftirfylgni, tækniráðgjöf, þjálfunarráðgjöf, tækniprófanir og önnur fagleg yfirumsjón yngri flokka. Yfirþjálfari heyrir beint undir stjórn unglingaráðs BÍ88.
Um leið er Jón Hálfdán ráðinn starfsmaður félagsins. Í því felst fyrst og fremst aðstoð við stjórnir félagsins, þ.e. stjórn unglingaráðs og stjórn meistaraflokksráðs og önnur störf eins og:
- samskipti við KSÍ (félagaskipti, mótamál, dagsetningar leikja, heimsóknir aðila, námskeiðahald, fræðslumál, lög og reglur)
- rukkanir æfingagjalda í samráði við gjaldkera
- daglegt starf í samráði við stjórnir (samskipti við HSV og önnur félög/sambönd, aðstoð við mótahald (leikjaniðurröðun og skipulag), umsjón skrifstofu)
- aðstoð við þjálfara við skipulag ferða (æfinga- eða keppnisferða) þar sem starfsmaður skal taka saman og láta í té upplýsingar um kosti og kjör við ferðalög og gistingu.
- uppfærsla á vefsíðu félagsins og samskipti við foreldra, styrktaraðila og aðra þá er að starfinu koma.

Þá er Jón Hálfdán einnig ráðinn þjálfari 2. flokks karla hjá BÍ88. Í því felst stjórn allra æfinga á vegum flokksins, skipulag/ákvörðun æfinga- og keppnisferða og annað það starf er að þjálfuninni lýtur. Um leið tekur hann að sér afreksbraut MÍ í knattspyrnu en þar eru æfingar tvisvar í viku, frá kl. 6:30-8:00 í samráði við skólann.
Stofnað hefur verið foreldraráð í 2. flokki Jóni Hálfdán til aðstoðar og mun það koma að tekjuöflun starfsins, skipulagi, fararstjórn og annarri þeirri aðstoð sem Jón Hálfdán óskar eftir.

 

Boltafélagið lýsir yfir ánægju sinni með ráðningu Jón Hálfdáns og býður hann velkominn til starfa. Megi það verða gæfuríkt og gefandi.

Deila