Fréttir

8. flokkur drengja í A-riðil

Körfubolti | 29.02.2016

Á liðinni helgi fór fram fjórða umferð Íslandsmótsins í körfubolta hjá 8. flokki drengja. Keppni í B-riðli fór fram á Ísafirði þar sem KFÍ (Vestri) tók á móti Grindavík, Ármanni, Stjörnunni og Skallagrími/Reykdælum. Fyrsti leikur KFÍ var gegn síðastnefnda liðinu sem var að koma niður úr A-riðili og var fyrirfram búist við hörkuleik. KFÍ tók snemma forystuna og hafði í kringum 15 stiga forskot í hálfleik. Í þriðja leikhluta jókst forskotið aðeins en síðan misstu strákarnir okkar einbeitinguna og Skallagrímur/Reykdælir náði að minnka muninn nokkuð. Í fjórða leikhluta fékk Hugi sína 5. villu og okkar strákar voru ekki að stíga nógu vel út undir körfunni með þeim afleiðingum að Borgfirðingar náðu að minnka muninn í þrjú stig. Þeir börðust vel síðustu mínúturnar en brutu fulloft á Hilmi sem kláraði leikinn örugglega á vítalínunni og urðu lokatölur 45-39.

Egill - 11 stig

Blessed - 7stig

Hugi - 10 stig

Hilmir – 17 stig

Seinni leikurinn á laugardeginum var á móti Stjörnunni. Liðin höfðu áður mættst í 3. umferð í lok janúar þannig að okkar menn vissu við hverju var að búast og komu vel undirbúnir til leiks. Þeir spiluðu af yfirvegun og voru fljótlega komnir með ágætt forskot sem jókst þegar á leið. Góður leikur á heildina litið hjá öllum strákunum og þá sérstaklega varnarleikurinn. Lokatölur 46 - 28 fyrir KFÍ (Vestra).

Egill - 6

Blessed – 6

Friðrik - 2

Hugi – 10

Hilmir – 22

Fyrri leikur sunnudagsins var kl. 9 á móti Grindavík og mátti búast við að menn væru seinir í gang svona snemma dags en það reyndust óþarfar áhyggjur. Strákarnir mættu tilbúnir til leiks og héldu fullri einbeitingu allan tímann og spiluðu af yfirvegun. Náðu þeir fljótt góðu forskoti og unnu leikinn örugglega en lokatölur urðu 59-30 fyrir KFÍ (Vestra).

 

Egill – 9

Blessed - 4

Friðrik – 2

Hugi - 12

Hilmir - 32

 

Lokaleikur KFÍ (Vestra) var á móti sterku lið Ármanns sem hafði verið í A-riðli fyrr í vetur. Liðin höfðu mættst í hörkuleik í 3. umferð í lok janúar og hafði KFÍ (Vestri) þá nauman sigur. Um hreinan úrslitaleik var núna að ræða þar sem bæði lið voru jöfn að stigum eftir leiki helgarinnar og ljóst að Ármenningarnir höfðu fullan hug á að tryggja sér sæti í A-riðli að nýju. Hjá okkar strákum kom hins vegar ekkert annað en sigur til greina  og mættu þeir ákveðnir til leiks. Enn og aftur spiluðu þeir af mikilli yfirvegun og stóðu frábæra vörn allan tímann. Þannig fengu þeir ekki á sig eina einustu villu í fyrsta leikhluta á meðan Ármenningarnir voru hins vegar strax á fyrstu mínútunum komnir í villuvandræði. Leikurinn var jafn framan af en okkar strákar sigu smám saman fram úr Ármenningunum og náðu forskoti sem aldrei var ógnað að neinu ráði í seinni hálfleik. Lokatölur urðu 55-44 fyrir KFÍ (Vestra).

 

Egill - 9

Blessed - 11

Friðrik - 2

James - 2

Hugi - 19

Hilmir – 12

 

KFÍ (Vestri) er þar með búið að tryggja sér sæti í A-riðli en lokaumferð Íslandsmótsins fer fram helgina 30. apríl – 1. maí í Dalhúsum í Grafarvogi og munu sigurvegarar þeirrar umferðar hampa Íslandsmeistaratitlinum. Þetta er glæsilegur árangur hjá strákunum sem byrjuðu veturinn í D-riðili og hafa unnið sig upp í efsta riðil undir stjórn þjálfara síns, Hákons Ara Halldórssonar. Þeir hafa einungis tapað einum leik af sextán í vetur og eru það lið sem hefur skorað flest stig í vetur eða 49,3 stig í leik að meðaltali. Liðið hefur tekið miklum framförum frá fyrsta mótinu í haust, ekki síst varnarleikur liðsins, en sömuleiðis eru menn einbeittari og agaðri inni á vellinum.

Deila