Helgina 30. apríl til 1. maí tók 8. flokkur drengja þátt í lokaumferð A-riðils í Íslandsmóti KKÍ sem haldin var í Dalhúsum í Grafarvogi. Mótherjarnir voru Fjölnir, Valur, Keflavík og KR og var nokkur spenna í loftinu því vitað var að það lið sem stæði uppi sem sigurvegari í riðlinum myndi hampa Íslandsmeistaratitlinum.
KFÍ (Vestri) lék tvo leiki á laugardeginum og var sá fyrri á móti Keflavík. Strákarnir mættu tilbúnir til leiks, spiluðu vel og sýndu góða baráttu í fyrri hálfleik sem var jafn og spennandi. Í þriðja leikhluta gáfu þeir aðeins eftir og nýttu Keflvíkingar sér það og voru komnir með ágætt forskot í lok þess leikhluta. Í fjórða leikhluta mættu okkar menn öllu ákveðnari til leiks og náðu smám saman að saxa á forskot Kefvíkinga. Tíu stiga munur var þegar tæpar tvær mínútur voru eftir en þá kom góður lokasprettur KFÍ (Vestra) og var munurinn kominn í þrjú stig þegar 10 sekúndur voru eftir. Strákarnir náðu að vinna boltann og Egill jafnaði með flottri flautukörfu. Framlengingin var jöfn og spennandi en þreytan sagði til sín undir það síðasta og urðu okkar menn að játa sig sigraða, 42-44. Flottur leikur hjá strákunum á móti Keflavík sem endaði í öðru sæti í riðlinum.
Seinni leikurinn á laugardeginum var á móti sterku liði Vals og bar öll einkenni þess að menn væru þreyttir og dálítið svekktir eftir tapið í fyrri leiknum. Leikurinn var einn sá slakasti hjá strákunum í vetur og hefðu þeir án nokkurs vafa átt að geta gert betur. Þess má geta að í leiknum (og fleiri leikjum) var nokkur vandræðagangur á ritaraborði og þurfti nokkrum sinnum að stöðva leikinn af þeim sökum. Í þessum leik var einn leikmaður KFÍ sendur útaf með fimm villur þegar einungis þrjár voru skráðar á töflu og engar villur höfðu verið kallaðar til þjálfara. Slík vinnubrögð ættu ekki að líðast í úrslitum þótt í yngri flokkum sé. Leiknum lauk með öruggum sigri Vals, 52-38, og má geta þess að Valsliðið stóð uppi sem Íslandsmeistarar að móti loknu.
Fyrri leikurinn á sunnudeginum var á móti KR. Strákarnir byrjuðu vel og voru fljótlega komnir með gott forskot, 10-1. Þá hrukku KR-ingar í gang og náðu smám saman að vinna upp muninn. KFÍ (Vestri) var með nauma forystu í hálfleik og var þriðji leikhluti jafn og spennandi en í fjórða leikhluta seig KR fram úr og náði ágætu forskoti í lokin. Lokatölur urðu 44-53 fyrir KR.
Síðasti leikurinn var á móti Fjölni sem fyrirfram hafði verið talið sigurstranglegasta liðið í riðlinum enda verið á toppi A-riðils megnið af vetrinum. Okkar strákar mættu vel stemmdir í leikinn, spiluð fínan körfubolta og sýndu hvað í þeim býr. Fjölnir var þó skrefinu á undan allan tímann og náði smám saman upp góðu forskoti. Lauk leiknum með öruggum sigri Fjölnismanna, 41-36.
Þrátt fyrir fjögur töp er ekki hægt að segja annað en að allir strákarnir hafi staðið sig gríðarlega vel á þessu lokamóti vetrarins. Þeir kepptu á móti sterkustu liðum landsins í þeirra aldursflokki og sýndu að þeir eiga fullt erindi í A-riðil. Veikleiki liðsins liggur hins vegar í því hversu fámennt það er, aðeins sjö strákar, á meðan hin liðin voru með fullsetna bekki. Það er erfitt að keyra á sömu leikmönnunum í 40 mínútur, og jafnvel lengur, en strákarnir eiga lof skilið fyrir baráttuna sem þeir sýndu allt til enda.
Deila