Fréttir

9. flokkur drengja í fjölliðamóti

Körfubolti | 20.03.2011
9. flokkur drengja
9. flokkur drengja
9. Flokkur karla hélt um helgina til borg óttans að spila í hinsta sinn á þessu tímabili. Mótið var haldið í Grafarvogi, Rimaskóla nánar tiltekið. Í þessum riðli eru mótherjarnir ekki af lélegri endanum en þetta eru allt gömul stórveldi sem eigast við, þessi lið eru til að mynda Haukar B, Sindri (Höfn), Fjölnir B og svo KFÍ. Það var því ljóst að þetta yrði rosalegt mót og mikið um blóð, svita og tár.

Fyrsti leikurinn okkar var gegn erkióvinum okkar frá suðurlandi eystra. Þeir mættu með sterkan hóp til leiks og gríðarlega reyndan þjálfara, Hilmar Guðjónsson. Leikurinn var ekki fallegur að horfa á fyrstu mínúturnar, bæði lið greinilega að ná sér eftir langt ferðalag og flugfætur (jetleg) hjá okkar mönnum voru að gera vart við sig.

Óskar Ingi var sterkur og hélt KFÍ mönnum uppi með góðri baráttu og sterkum fráköstum og setja-aftur (put-back) körfum. Sindri náði fljótt forystunni undir góðri spilamennsku og leiðtogahæfileikum Alexanders Snæs sem átti hreint út sagt stórkostlegt mót. Haukur náði að setja tvær góðar körfur til að enda leikhlutann, 15-11, Sindra í vil.

Í öðrum leikhluta var það sama uppá teningnum hjá báðum liðum, sterk maður-á-mann vörn skilaði töpuðum boltum hjá andstæðingunum en oft voru menn of bráðir að keyra áfram að þeir gleymdu að taka boltann með sér og töpuðu honum jafnharðan. Annar leikhlutinn fór 10-8 og Sindri með þægilegt sex stiga forskot í hálfleik. Sindra menn ætluðu ekki að slaka á og komu dýrvitlausir til leiks í þriðja leikhluta og virtust ekkert ráða við Alexander því hann skoraði 9 stig í leikhlutanum sem gaf þeim 9 stiga forystu inní síðasta leikhlutann.

Loksins virtust menn vakna þegar bakið var komið upp við vegginn og strákarnir fóru loksins að sýna KFÍ hjartað. Þeir börðust eins og ljón allir sem einn, Siggi Ben var brjálaður í fráköstunum og tók 5 sóknarfráköst í síðasta leikhlutanum. Hákon var sterkur að keyra á vörn Sindra sem kom sér ekki aftur í flýti og uppskar oftast körfu eða ferð á vítalínuna. Við unnum leikhlutann 9-14 en það vantaði 4 stig uppá. Klaufaleg tæknivilla var dæmd í endann þegar við hefðum getað minnkað muninn í eitt stig en í staðinn fengu þeir 4 vítaskot og boltann aftur og gerði það útum leikinn þegar aðeins var mínúta eftir. Rosalega ánægður með baráttuna í mínum mönnum í síðasta leikhlutanum. Við vinnum þá næst!

Stigaskor: Haukur 21, Hákon 14, Óskar 5, Helgi 3, Sigurður 2


Eftir svekkjandi tap og rosalega baráttugleði í fyrsta leiknum er annar leikurinn vart frásögu færandi þar sem menn voru uppgefnir og virtist eins og menn væru ekki með hugann á réttum stað. Haukarnir voru næstu andstæðingar KFÍ Ísbjörnsins og reyndust þeir ofjarlar okkar. Þeir spiluðu svæðisvörn allan leikinn og við áttum í tómu basli með að setja skotin okkar ofaní körfuna oft eftir góðan undirbúning. Dagbjartur og Andri voru ekki hræddir við að skjóta opnum skotum í horninu en þetta var bara ekki okkar dagur og boltinn var ekki að detta.

 

Leikurinn 17-12, 10-4 (27-16),15-6(32-22), 17-6 (49-28). 31 stiga sigur Hafnfirðingana í höfn og við ætluðum ekki að láta þetta hafa áhrif á okkur og undirbúningur fyrir Fjölnisleikinn hófst strax. Andri sýndi góða takta í leiknum og reif niður 3 sóknarfráköst yfir helmingi stærri menn. Liðið í heild sinni sýndi ekki nógu og sterkan vilja til þess að hreinlega að geta verið sárir eftir svona tap. Vítanýtingin okkar var ekki til sóma en við komumst oft á línuna en húna var 9/24 eða um 35% nýting. Góða við leikinn er að það er fullt af hlutum sem við getum tekið úr honum og unnið að, að komandi tímabili.

Stigaskor: Óskar 7 (5/12) í vítum, Haukur 7, Hákon 6 (2/6) í vítum, Dagbjartur 4 (2/4) í vítum, Helgi 2 (0/2) í vítum. 

 


Morguninn eftir voru allir endurnærðir eftir góðan tíma hjá ættingjum sínum. Við fengum þó stutta upphitun og okkar mönnum var enn kalt þegar leikurinn hófst. Leikurinn byrjaði ekki mjög vel og komust Fjölnismenn fljótt yfir 9-2, en héldum áfram baráttu og náðum að klóra í bakkann og enda leikhlutann með 5-2 áhlaupi og var staðan því 11-7 fyrir heimamenn.

 

Hákon var illviðráðanlegur og hljóp framhjá öllum og allri vörn Fjölnis og setti góða pressu á þá eftir annaðhvort tapaðan bolta eða varnarfrákast. Hann skoraði 15 stig bara í fyrri hálfleik. Kjartan setti góðan þrist lengst niður í bæ og þakkaði fyrir sig með að setja hann í spjaldið og ofaní. Staðan í hálfleik 23-19 (12-12).

 

Við komum betur stemmdir til leiks í þriðja og héldum áfram fyrr frásagðri pressu og unnum leikhlutann og minnkuðum muninn niður í 2 stig, 32-30. Með hrikalega góðri maður og mann vörn náðum við að halda sterkum keyrungum (drive-urum) frá körfunni og vorum einnig hrikalega ágengir í fráköstum og gáfum þeim aldrei tækifæri á öðru tækifæri í sömu sókninni.

 

Eftir hrikalega spennandi lokasekúndur þá náðum við að komast yfir með tveimur fjölleikahúss körfum frá Hákoni. Aðeins örfáar sekúndur eftir og við einu stigi yfir. Þeir ná þvinguðu skoti en klikka og Hákon tekur mikilvægt frákast sem endar í uppkasti. 2 Sekúndur eftir og þeir eiga innkast undir, við skiptum í svæðisvörn, þeir senda útí horn en þá kemur Dwight Howard, nei ég meina Haukur Hreinsson og ver síðustu skottilraun þeirra og út brýst gífurlegur fagnaður. Fyrsti sigurinn á leiktímabilinu staðreynd og það á móti liði sem á að vera best samkvæmt allra heilögustu pappírum.
Stigaskor: Hákon 24, Óskar 11, Haukur 8, Kjartan 3

 

Ari Gylfa

Deila