Það var góð mæting á aðalfund KFÍ þar sem samankomnir voru t.d. þrír fyrrverandi formenn félagsins auk formanns HSV og sá sem hélt utan um fundinn og sá til þess að honum vaæri rétt stjórnað var rétt var fyrrverandi gjaldkeri félagsins, fyrrum forseti JC á Íslandi og dyggur stuðningsmaður KFÍ Gísli Elís Úlfarsson.
Um venjuleg aðalfundarstörf var að ræða og einnig voru lög félagsins endurnýjuð og stílfærð til þess að koma á móti nútímavæðingu samfélagsins. Fyrst steig í pontu stjórnarmaður í KKÍ Guðjón. M. Þorsteinsson sem færði fundinum góða kveðju frá sambandinu og sagði frá hvað væri á döfinni þar á bæ.
Og þá var komið að skýrslu stjórnar sem Sævar Óskarsson starfandi formaður ritaði og las Birna Lárusdóttir skýrsluna í forföllum formanns. Við tók skýrsla unglingaráðs sem formaður ráðsins Óðinn Gestsson las upp og reikningar félagsins voru bornir upp af gjaldkera félagsins Guðna Ólafi Guðnasyni.
Skýrslurnar voru allar samþykktar og lög félagsins einnig. Formaður HSV hélt góða ræðu og sagði hvað framundan væri hjá sambandinu og sagði að aðalfundur HSV væri 10. maí n.k.
Að þessu loknu voru kosningar og gaf Shiran Þórisson ekki kost á sér, en hann hefur haft í nógu að snúast fyrst sem formaður og svo tók hann við erfiðu hlutverki sem þjalfari mfl. KFÍ og stóð vaktina vel.
Það er skemmst frá því að segja að ný stjórn er skipur vægast sagt frábæru fólki.
Formaður. Sævar Óskarsson.
Birna Lárusdóttir, Guðni Ó. Guðnason, Ingólfur Þorleifsson og Óðinn Gestsson aðalmenn.
Sturla Stígsson, Guðfinna Hreiðarsdóttir og Unnþór Jónsson varamenn.
Og stjórn mun síðan skipta með sér verkum. Um er að ræða kraftmikla stjórn og er tilhlökkun í hópnum.
Hér er Skýrsla stjórnar KFÍ 2010 - 2011
Ágætu fundarmenn.
Aðdragandi keppnistímabilsins
Síðasta starfsár KFÍ og raunar allt síðasta keppnistímabil félagsins, varð ekki eins og lagt var upp með á vordögum síðasta árs. Eftir að hafa orðið deildarmeistarar í 1. deild á síðasta tímabili, þá óx mönnum ásmegin og stefnan var tekin á að standa sig í Iceland Express deildinni að ári. Mat stjórnar var að nauðsynlegt væri að láta nýja strauma koma með nýjum og krefjandi verkefnum. Því fylgdi að Borce Iliveski myndi láta af störfum og annar þjálfari yrði ráðinn, sem gæti breikkað og bætt við annars mjög gott starf fyrri þjálfara. Þetta taldi stjórn á þeim tíma nauðsynlegt til að tryggja framþróun í félaginu og auka styrk liðsins í deild þeirra bestu.
Okkur óraði ekki fyrir því umróti sem þessi ákvörðun kom á starf félagsins og satt best að segja þá voru orð og æði stuðningsmanna og annarra þeirra sem létu sig félagið varða slík að menn gengu sárir frá borði. Af hverju er verið að rifja þetta upp nú? Jú, vegna þess að sú umræða sem heyrðist og þau skrif sem sáust langt út fyrir félagið okkar og byggðarlag settu mark sitt á félagið og allt starfsumhverfið á árinu. Við urðum þess sterklega vör, þegar við vildum byggja upp lið með ungum og fljótum körfuboltamönnum, sem hefðu metnað til að leggja á sig mikinn aga og erfiðar æfingar, að KFÍ var ekki lengur aðlaðandi fyrir þá. Það vita ekki allir að þessi stjórn gældi við það á vordögum 2010 að skipa lið KFÍ þremur erlendum leikmönnum, 4-5 íslenskum aðkomumönnum og 5 mönnum héðan, úr okkar félagi. Af ástæðum sem ekki verða eltar hér þá smá nagaðist af þessu og fyrir rest varð KFÍ að spila með 7 erlendum leikmönnum, einum íslenskum aðkomumanni og drengjaflokknum, loksins þegar í efstu deild var komið. Þetta var sannarlega ekki óskastaðan okkar, en slaginn varð að taka. Þótt margt fleira hafi síðan reynst okkur andsnúið í vetur, þá má ekki gleyma því að ýmislegt gekk okkur í hag og má þar nefna að nýliðun í félaginu á þessu starfsári fór fram úr okkar björtustu vonum. Þeirri staðreynd vill stjórn halda sérstaklega á lofti.
Meistaraflokkur karla
Bob Jerome Aldrige var ráðinn þjálfari meistaraflokks KFÍ og má segja að við komu hans hafi ferskir vindar blásið um félagið. Þarna var kominn maður sem keyrði á gríðarlega hröðum körfubolta, mörgum skiptingum og raunar svo mörgum að reyndir menn í boltanum urðu furðu lostnir. Sannarlega komu þarna nýjar áherslur í þjálfun og ekki laust við að heldur hýrnaði yfir mönnum þegar tveir af þremur fyrstu leikjum mótsins unnust nokkuð sannfærandi. En uppúr þessu fór að verða ljóst að sá mannskapur sem við höfðum var ekki að ná því að keyra á þessum hraða, með þessu mikla álagi. Má segja að BJ hafi ekki náð að stilla þjálffræðina við þann hóp sem hann hafði í höndunum og fljótlega fór að bera á því að liðið var yfirkeyrt. Lið og þjálfari voru aldrei á sama stað í þjálfuninni.
Okkar besti maður, Edin Sulic, reyndist vera með gömul meiðsl sem tóku sig upp við þetta álag, síðan fækkaði í hópnum hjá okkur eftir því sem kröfurnar jukust og álagið óx. Að lokum, þegar stjórn varð ljóst að sá mannskapur sem eftir stóð var einfaldlega ekki að ráða við það sem þjálfarinn krafðist, þá var ákveðið að reyna að snúa þessu við, hægja á spilinu og leika körfubolta sem mannskapurinn réði betur við. Segja má að það hafi tekist. Shiran Þórisson, sem þá var formaður félagsins tók það lítt öfundsverða hlutverk að sér að stöðva fallið, þannig að ekki fjaraði algjörlega undan félaginu þetta tímabil. Honum tókst á mjög skömmum tíma að koma skipulagi og festu á leik okkar manna, þannig að KFÍ varð aftur verðugur andstæðingur hvaða liðs sem var, og má þar minna á sigur okkar á Íslandsmeisturum síðasta árs - Snæfelli. Síðan komu margir góðir og jafnir leikir þar sem sigur gat fallið beggja vegna, en þetta árið nutu andstæðingar okkar þess oftar en við. Stjórnin vill sérstaklega þakka Shirani þá dirfsku sem hann sýndi með því að taka þennan slag fyrir félagið á erfiðum tímum.
Til að ljúka þessari samantekt um meistaraflokkinn þá unnust ekki nema 5 af 22 leikjum leiktíðarinnar, sem er afleitur árangur. Við lukum keppni í neðsta sæti og leikum á næsta tímabili í 1. deild karla.
Meistaraflokkur kvenna
Þá víkur sögunni að meistaraflokki kvenna. Stjórnin vill sérstaklega óska meistaraflokki kvenna til hamingu með framganginn á þessu starfsári - í fyrsta lagi fyrir það afrek að tefla fram liði í 1. deild kvenna og ekki síður fyrir að ná þeim árangri sem raun ber vitni. Stelpurnar okkar unnu 6 af 13 leikjum sínum þetta tímabil og eiga þær mikið hrós skilið. Meistaraflokkur kvenna er skipaður góðum eldri kjarna og síðan stelpum sem eru einungis 14-16 ára gamlar. Breiddin er því mikil og er ekki annað að sjá en að framtíð kvennaboltans sé björt hjá félaginu.
Unglingastarf félagsins
Þrátt fyrir töluverða umræðu, sem oft er í vandlætingartón, bæði hér og ekki síður í körfuboltaheiminum um "útlendingahersveitina" hjá KFÍ, þá sýnir það sig að unglingastarf félagsins stendur með miklum ágætum og er að skila fjölmörgum flokkum í keppni í Íslandsmeistaramótum KKÍ. Ég ætla ekki frekar inn á störf unglingaráðs enda mun formaður þess, Óðinn Gestsson, flytja ykkur skýrslu unglingaráðsins hér á eftir. En ég ætla að nota þetta tækifæri og óska iðkendum okkar öllum til hamingu með þann árangur sem þeir hafa náð, bæði persónulega og fyrir félagið.
Rekstur félagsins
Íþróttafélög af okkar stærðargráðu, sem halda úti metnaðarfullu starfi í öllum flokkum fyrir bæði kyn, búa við umtalsverðan rekstur og stjórnsýslu. Þegar liði er síðan haldið úti í efstu deildum þá er þetta nánast orðið eins og fyrirtækjarekstur, þar sem ekkert má fara úrskeiðis. KFÍ er einstaklega gott félag í þeim skilningi að það er ríkt af hæfileikamiklu fólki sem leggur oft fram ómælda vinnu til þess að iðkendur félagsins fái notið þess besta sem félaginu er unnt að bjóða hverju sinni, bæði í þjálfun og keppni. Þeim er umhugað um að kenna ungu iðkendum okkar að ávallt skuli leggja sig að fullu fram í hvert verkefni og ekki síður að vera ævinlega sjálfum sér og félaginu til sóma hvar sem félagið kemur til keppni eða leiks. Þessu ágæta fólki færir stjórn sérstakar þakkir fyrir ómetanlegt starf sem ekki er alltaf sýnilegt.
KFÍ hefur einnig á að skipa breiðum hóp stuðningsaðila sem hafa stutt félagið af miklum myndarskap. Öllum má vera ljóst að töluverður kostnaður fylgir því þegar félag keppir í efstu deildum, bæði vegna launa þjálfara og hlunninda til leikmanna sem hingað hafa verið fengnir til að styrkja það. Stór hluti þessa kostnaðar er samt sú landfræðilega staða KFÍ að ekkert lið er í nálægð og er því verulegur ferða- og gistikostnaður við hvern einasta útileik meistaraflokka félagsins. Menn hafa lagt sig fram við að halda ferðakostnaði í lágmarki og þar hefur hlutur Flugfélags Íslands reynst drýgstur, en Flugfélagið hefur reynst KFÍ ómetanlegur bakhjarl í gegnum árin, enda ekki mörg lið í okkar grein sem búa við jafn erfiðar leiðir að fara að vetrarlagi. Það er ekki laust við að mótherjar okkar á Suðurlandinu séu öfundsverðir af því að þurfa ekki að fara nema einu sinni til tvisvar á vetri yfir torleiðir eða í erfið flug til keppni. Þeim fjármunum sem fara í þessar íþyngjandi ferðir væri betur varið í uppbyggingu félagsins. Þrátt fyrir nýjan sjóð sem ætlað er að jafna ferðakostnað virðist hlutdeildin ævinlega vera lítil sé miðað við þá fyrirhöfn og þann ferðakostnað sem á okkur brenna. KFÍ eða önnur metnaðarfull íþróttafélög gætu ekki haldið úti svo miklu starfi ef ekki væri fyrir skilning og metnað styrktarsaðilanna okkar. Stjórn færir þeim bestu þakkir fyrir. Félagið er rekið af ráðdeild og öllum góðum reikningsskilareglum er fylgt. Vandaður ársreikningur er gerður fyrir hvert almanaksár, sem við afhendum styrktaraðilum okkar, þannig að þeir geti betur fylgst með hvernig fjármagni félagsins er ráðstafað. Guðni Ólafur Guðnason er gjaldkeri félagsins og fer hann yfir reikninga félagsins hér á eftir.
Önnur verkefni félagsins
Iðkendur félagsins og aðstandendur þeirra hafa verið duglegir við að taka þátt í þeim fjáröflunum sem félagið stendur að. Þar má helst telja okkar bráðnauðsynlega klósettpappír og handþurrkusölu sem hefur gengið afskaplega vel. 17. júní hátíðin er síðan vinna sem við leggjum fram á móti styrk frá Ísafjarðarbæ í gegnum HSV. Síðast en ekki síst höfum við fengið að sjá um veitingasöluna á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður sem er drjúg tekjulind. Ýmsar minni fjáraflanir hafa einnig fallið til og sannast þar að molar eru líka brauð. Í lok nóvember blés KFÍ til mikillar fjölskylduhátíðar í íþróttahúsinu á Torfnesi. Fyrripartur laugardags var allur helgaður KFÍ og má ætla að um 300 manns hafi sótt fjölbreytta dagskrá og notið veglegra veitinga. Markmið hátíðarinnar var að vekja athygli á starfi félagsins og fjölga um leið iðkendum í yngri hópum. Það tókst með ágætum enda hafa sjaldan verið fleiri yngri iðkendur skráðir í félagið. Við fengum 100.000 króna styrk úr verkefnasjóði HSV vegna hátíðarinnar og ber að þakka það. Brýnt er að fylgja þessu átaki vel eftir á hverju hausti því samkeppnin um nýja iðkendur harðnar með hverju ári.
Eitt metnaðarfyllsta verkefnið sem KFÍ hefur staðið að eru körfuboltabúðirnar okkar í byrjun júní. Reynsla þeirra sem fóru í ferðirnar til Serbíu á sínum tíma og sáu með eigin augum hvernig krakkarnir uxu í íþróttinni á einni viku, kenndi mönnum að slíku yrði að koma á hér heima og leyfa fleirum að njóta. Verður að segja eins og er að mjög vel hefur til tekist enda er allur metnaður lagður í að þjálfarateymi slíkra búða sé gott og aðstæður og aðbúnaður sá besti sem gerist. Stjórn hefur fylgst með undirbúningi búðanna þetta árið og er afskaplega ánægð með hversu vel hefur til tekist með þjálfarateymi, enda stefnir í að þessar búðir verði umtalsvert betri en þær fyrri. Helgi Sigmundsson og Guðjón Þorsteinsson hafa borið hitann og þungan af skipulagningunni þetta árið og þakkar stjórn þeim vel unnið og metnaðarfullt starf.
Samstarf
Um nokkurt skeið hefur verið gott og farsælt samstarf félagsins við Bolungarvíkurkaupstað um nýtingu mannvirkja þar. Nokkrir af efnilegri iðkendum félagsins eru frá Bolungarvík, og lögðu þeir á sig töluvert erfiði og stundum vafasamar ferðir fyrir Óshlíðina til að mæta til æfinga á Torfnesi. Þessi áhugi og kraftur varð síðan til þess að félagið gerði samkomulag við Bolungarvíkurkaupstað um æfinga- og keppnistíma í íþróttahúsinu í Bolungarvík, bæði fyrir meistaraflokka félagsins og yngriflokka. Þetta samstarf hefur gengið afskaplega vel og erum við í KFÍ þakklát Bolvíkingum fyrir stuðninginn. UMFB er nú komið með körfubolta innan sinna raða og hefur samstarf við þá verið af ýmsum toga, s.s. æfingar og keppni. Tengslin eru líka töluverð því þarna leika nokkrir af fyrrum afreksmönnum KFÍ.
Framtíðarsýn
Nú hillir undir að við getum loks aftur teflt fram karlaliði í 1. deildinni sem er að mestu sprottið upp úr yngriflokkastarfi félagsins. Líklega gerðist það síðast í kringum 2000 að meirihlutinn kom úr þeim hópi. Við höfum nú vænlegan hóp drengja sem geta með Craig, og líklega einum stórum leikmanni undir körfunni, myndað mjög frambærilegt lið til að keppa í 1. deild. Á þetta erum við nú að stefna og er vinna í fullum gangi við að setja saman þetta lið. Væntingar okkar eru miklar og ánægjan sömuleiðis yfir því að vera í þessum sporum á ný. Sama má segja um meistaraflokk kvenna. Þar er að skapast tækifæri til gera góða og skemmtilega hluti.Við höfum um nokkurt skeið verið að skoða hvernig við viljum sjá meistaraflokk kvenna á næsta tímabili og er núverandi stjórn einhuga um að þær verðskuldi ekkert minna en að vera á sama stalli og karlaflokkurinn. Þetta erum við að útfæra í dag og má reikna með að gengið verði frá þessu næstu daga. Skemmtilegasta verk nýrrar stjórnar verður að skrifa undir samninga við þetta frábæra íþróttafólk sem mun keppa fyrir okkar hönd á næsta leiktímabili. Það hefur einnig verið rætt í stjórn að nauðsynlegt sé að marka skýrari stefnu fyrir félagið til framtíðar. Fyrsta skrefið ætti að vera að efna til stefnumótunarfundar stjórnar, unglingaráðs, þjálfara og fleiri áhugasamra nú í vor til að ræða framtíðarstefnu KFÍ og móta hana til nokkurra ára. Eitt verkefna nýrrar stjórnar verður að leiða þá vinnu.
Ógnanir
Þó að þessi skemmtilegu verkefni séu framundan, þá er ekki hægt að láta hjá líða að nefna það hér að liðin sem hafa hvað bestan aðgang að unga fólkinu á höfuðborgarsvæðinu, telja sér það skylt að hafa vit fyrir okkur sem höfum ekki aðgang að ómældum fjölda leikmanna. Nú er komin fram tillaga til þings KKÍ um að aðeins einn erlendur leikmaður megi leika inni á vellinum hverju sinni og fjórir íslenskir. Einnig eiga menn von á að fram komi tillaga um 2+3 reglu, þ.e. tveir útlendingar og þrír Íslendingar. Hugsunin á bak við þetta er svo sem göfug en okkur, sem búum við það að iðkendur okkar flytja til Reykjavíkur í skóla þegar þeir eru loksins orðnir frambærilegir leikmenn, finnst þetta súrt í broti. Menn eru með slíkum tillögum í fullri alvöru að dæma félög á botn 1. deildar eða jafnvel í 2. deild allt eftir því úr hvaða byggðarlögum þau koma. Reynslan sýnir okkur að í 3500 manna byggðakjörnum þá munu koma göt í uppeldið hjá félögunum og þeim götum verður að vera hægt að loka með aðkomumönnum, í það minnsta yfir einhver timabil eins og KFÍ hefur gert. Stjórnin óttast að körfuboltinn á minni stöðunum muni skaðast varanlega ef hömlur sem þessar eru settar á félögin. Frjálsræði í þessu sem öðru er yfirleitt betra en höft. Það er þó ekkert útilokað að félag eins og okkar geti keypt nokkra landsliðsmenn Íslands hingað vestur frá öðrum liðum, en til þess að það sé hægt þarf umtalsvert meiri fjármuni frá stuðningsaðilum en nú er. Það verður að viðurkennast að oft eru erlendir leikmenn að koma til að bæta "stattið sitt" til þess að komast að hjá stærri félögum, og eru hér nánast uppá vatn og brauð. En 1+4 regla fyrir KFÍ og lík félög er fráleit og sendir okkur beint í 2. deild nema til komi töluverðir fjárstyrkir. 2+3 reglan gengur fyrir okkur á ánægjulegum tímum eins og nú þegar við uppskerum úr yngriflokkastarfinu.Vonandi getur slíkt lið komist í efstu deild, en til að það megi verða þá þarf vel til að takast. Núverandi stjórn KFÍ er á móti hömlum sem kunna að standa í vegi fyrir metnaði og kröfum stuðningsmanna okkar. Við áskiljum okkur þann sjálfsagða rétt að geta brugðist við þeim aðstæðum sem skapast hverju sinni, enda er það yfirlýst markmið félagsins að tefla öllu okkar fólki fram í meistaraflokkum félagsins ef þess er nokkur kostur. Félögunum hlýtur að vera best treyst til að byggja upp og nýta sitt yngriflokkastarf. Og fyrir utan þetta þá væru það ömurlegar aðstæður fyrir íþróttafélag, sem starfar í fjölmenningarumhverfi eins og Vestfirðir eru, að þurfa að hafna fólki einungis vegna þess að liturinn á passanum er ekki réttur.
Lokaorð
KFÍ hefur vissulega þurft að kljást lengi við þann vanda sem tengist skorti á nýliðun iðkenda líkt og mörg önnur félög í Ísafjarðarbæ en á þeim vanda er þó einkar jákvæð hlið, séð frá samfélagslegu sjónarmiði. Það er leitun að sveitarfélagi þar sem jafnmargar íþróttagreinar eru stundaðar í jafnháum gæðaflokki og raun ber vitni hér. Framboðið er mikið og skilar sem betur fer stórum hluta unga fólksins okkar í íþróttir. Það er í grunninn markmið allra íþróttafélaga. Íþróttir eru besta forvörnin við válegum freistingum, endar er í félögunum alið á aga, metnaði, sjálftrausti og ekki síst því að vera sjálfum sér, félaginu og bænum sínum til sóma. Stjórn KFÍ vill þakka öllum þeim, sem hafa lagt hönd á plóginn í vetur til að halda merkjum KFÍ á á loft, hvort heldur það eru þjálfarar, iðkendur, foreldrar, stuðningsmenn eða styrktaraðilar. Með samhentu átaki er enn eitt starfsárið að baki og undirbúningur fyrir það næsta kominn langt á veg. Það er einlæg trú okkar að kröftugu félagi á borð við KFÍ séu allir vegir færir.
Sævar Óskarsson formaður stjórnar KFÍ :
Skýrsla Unglingaráðs KFÍ
Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar
_____________________________________________
Skýrsla Unglingaráðs veturinn 2010-2011
Unglingaráð:Óðinn Gestsson, Elvar Ingason, Helga Björk Jóhannsdóttir, Birna Lárusdóttir, Kristín Örnólfsdóttir og Stefanía Ásmundsdóttir.
Yfirþjálfari: B.J. Aldridge og síðar Stefanía Ásmundsdóttir.
Fjórir flokkar tóku þátt í Íslandsmóti að þessu sinni og stóðu sig vel. Minnibolti drengja var skráður í Íslandsmót en tók aðeins þátt í fyrstu túrneringunni. Mat manna var að betra væri að einbeita sér að tveimur hraðmótum fyrir þennan aldurshóp og geyma Íslandsmót til síðari tíma. Hópurinn fór því á Póstmótið í janúar og Nettómótið í mars. Var það stærsti viðburðurinn á vegum minniboltans í vetur með 25 þátttakendum og 20 foreldrum. Sérstaka athygli vekur hversu margir foreldrar taka virkan þátt í starfi og ferðum minniboltans en Nettómótið er gott dæmi um það. KFÍ skipuleggur nú í samstarfi við Hörð á Patreksfirði einskonar Vestfjarðamót minnibolta og verður það haldið á Patreksfirði fyrstu helgina í maí ef allt gengur upp. Fyrirhugað er að fara með sem flesta yngri iðkendur félagsins á það mót og enda þannig leiktíðina af krafti.
Krílabolti var í boði í fyrsta sinn nú í vetur við mikinn fögnuð þeirra litlu en þetta eru iðkendur á aldrinum 3-6 ára og hefur Shiran Þórisson leitt þetta mikilvæga starf. Allt að 15 iðkendur hafa mætt á reglulegar æfingar sem fram fara einu sinni í viku á föstudögum í íþróttahúsinu við Austurveg. Þá er rétt að minnast á Íþróttaskóla KFÍ sem hefur verið undir stjórn Árna Ívarsonar, íþróttakennara, á laugardögum í vetur líkt og undanfarna vetur. Þó svo að skólinn heyri ekki beint undir Unglingaráð þá starfar hann í nafni KFÍ og kunnum við Árna bestu þakkir fyrir hans frábæra starf á undanförnum árum.
KFÍ hefur á þessu ári ekki farið varhluta af því að íþróttagreinum í bænum hefur fjölgað og hefur félagið því fengið færri tíma til umráða í íþróttahúsinu á Torfnesi en við hefðum kosið. Þetta hefur að einhverju leyti verið leyst með því að hluti starfseminnar hefur farið fram í Bolungarvík og kunnum við Bolvíkingum bestu þakkir fyrir það. Á móti hefur komið að við höfum tekið að okkur stjórn á æfingum fyrir Bolvíkinga og hefur Guðjón Þorsteinsson séð um þær ásamt fleirum. Hinsvegar er brýnt að leysa húsnæðisvanda minniboltans á næsta starfsári því svo mjög hefur fjölgað í þeim aldursflokki að engin leið er að sinna því án þess að til komi betri aðgangur að íþróttamannvirkjum á Ísafirði, einkum á Torfnesi.
Fjáröflun Unglingaráðs hefur verið með hefðbundnu sniði sem felst í því að sjá um WC og eldhúspappírssölu ásamt því að manna sjoppu á heimaleikjum meistaraflokks karla. Hagnaður af sjoppurekstrinum hefur runnið beint í ferðasjóð iðkenda á Íslandsmót og hefur okkur tekist að greiða hverja ferð niður um kr. 3.000.- fyrir hvern iðkanda í vetur. Þetta er töluverð búbót nú í kreppunni. Þá hefur Unglingaráð ásamt stjórn KFÍ séð um sölu á veitingum á „Aldrei fór ég suður“ hátíðinni og hefur það verkefni verið mjög skemmtilegt að vinna við. Þá eru ótalin fjölmörg fyrirtæki sem styrkja starf Unglingaráðs og eru framlög þeirra ómetanleg. Síðan eru það auðvitað æfingagjöldin sem hver iðkandi greiðir. Þó finnum við fyrir því nú í miðri kreppunni að töluvert þyngra er fyrir fæti í innheimtu æfingagjalda en verið hefur undanfarin ár. Þá tók Unglingaráð að sér að selja hettupeysur merktar félaginu og var gerður góður rómur að þessu framtaki. Stefnt er að því að þessar peysur verði í framhaldinu seldar í versluninni Legg og Skel á Ísafirði fyrir þá sem vilja eignast þessa fallegu flík. Hugmyndir eru um að selja alla búninga félagsins í versluninni líkt og sumar aðrar íþróttagreinar gera.
Unglingaráð vill taka undir þær hugmyndir sem fram hafa komið í stjórn KFÍ um að nauðsynlegt sé að efna til fundar stjórnar, unglingaráðs, þjálfara og fleiri til að ræða framtíðarstefnu KFÍ og móta hana til nokkurra ára. Þá hvetur Unglingaráð til þess að „Fyrirmyndarhandbók KFÍ verði uppfærð og kynnt öllum þjálfurum og öðrum sem koma að starfi félagsins.
Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á þeirri nýliðun sem orðið hefur í barna- og unglingastarfi KFÍ í vetur og eru umtalsvert fleiri iðkendur skráðir í yngstu flokkana nú en var síðasta vetur. Félagið fór í sérstakt átak til að kynna körfuna, haldin var vegleg fjölskylduhátíð auk þess sem allir nýir iðkendur fengu körfubolta að gjöf frá KFÍ. Hefur þetta átak skilað sér m.a. í stórum hópi í Krílabolta, nýjum drengjahópi í minnibolti yngri og nýjum og öflugum hópi í minnibolta eldri stúlkna. Flestar þeirra fara þó upp í 7. flokk í haust og því þarf að halda vel á kynningarmálum meðal barna, einkum stúlkna, á komandi hausti.
Nýverið samþykkti Unglingaráð reglur sem eiga að gilda á keppnisferðum á vegum yngri flokka KFÍ, þessar reglur munu verða aðgengilegar á heimasíðu félagsins og hvetjum við alla foreldra til að kynna sér þær vel, þjálfarar og liðstjórar munu vinna eftir þessum reglum í framtíðinni. Við þökkum Birnu Lárusdóttur og Kristínu Örnólfsdóttur fyrir að hafa haft frumkvæði að þessari vinnu.
Stjórn Unglingaráðs vill þakka öllum þjálfurum, iðkendum og foreldrum fyrir samstarfið á liðnu ári og vonandi munum við eiga áfram gott samstarf í framtíðinni.
En þá að einstökum flokkum og einstaklingum sem heyrt hafa undir Unglingaráð KFÍ á þessu starfsári sem nú er að ljúka.
Drengjaflokkur:
Þjálfari B.J. Aldridge ásamt Joe Davenport og Síðar Carl Josey.
Tóku þátt í Íslandsmóti, og hafa þegar þetta er skrifað spilað 16 leiki - 9 leikir hafa unnist en 7 hafa tapast. Þessi flokkur er nú í úrslitakeppni 8 bestu liða á Íslandi í þessum aldursflokki og mun að óbreyttu verða uppistaðan í meistaraflokki KFÍ á næstu leiktíðum. Frábær árangur hjá þessum strákum.
Komust í 2. umferð í bikarkeppni.
Stúlknaflokkur:
Þjálfari: Stefanía Ásmundsdóttir.
Árangur þessa flokks var mjög góður á síðasta starfsári. Alls léku stúlkurnar 15 leiki í íslandsmóti - 10 leikir unnust en 5 töpuðust. Stúlknaflokkur byrjar næstu leiktíð í b riðli.
Í Bikarnum féllu stúlkurnar út í fyrstu umferð.
9. flokkur drengja:
Þjálfarar: Joe, Daði, Ari.
Þessi flokkur er skipaður miklum hæfileikamönnum sem eru mjög fjörugir og er vonandi að þeim takist að nýta þennan mikla kraft í leikinn í framtíðinni. Töluvert los var á þjálfaramálum þessa flokks á síðustu leiktíð en undir öruggri stjórn Ara Gylfasonar, sem tók málin föstum tökum eftir að hann tók við þjálfuninni, vann liðið einn leik í síðustu turneringunni. All voru leiknir 13 leikir í Íslandsmóti í þessum flokki á síðustu leiktíð.
Í Bikarnum féllu drengirnir út í fyrstu umferð.
9. flokkur stúlkna
Þjálfari: Stefanía Ásmundsdóttir.
Í þessum flokki lékum við 16 leiki í Íslandsmóti. Þarna unnust 8 leikir en 8 leikir töpuðust. Þessi flokkur er þannig að þarna geta öll lið unnið hvert annað. 9. flokkur byrjar í 10 flokki á næstu leiktíð í A riðli á meðal 5 bestu liða á íslandi.Stúlkurnar komust í aðra umferð bikarkeppninnar. Þá er í þessum flokki eini landsliðsmaður KFÍ, Eva Margrét Kristjánsdóttir, en hún spilar samhliða með stúlknaflokki og Meistaraflokki kvenna. Við óskum Evu til hamingju með áfangann. Eva tekur þátt í landsliði U-15 sem keppa mun fyrir Íslands hönd í Danmörku nú í sumar.
Minnibolti eldri drengja:
Þjálfari: Byrjuðum með enskumælandi þjálfara sem gekk ekki. Guðjón Þorsteinsson tók við.
Flokkurinn tók þátt í Póstmótinu í Kópavogi í haust og Nettómóti Keflavíkur/Njarðvíkur nú í mars. Var einnig skráður í Íslandsmót en hætti eftir eina túrneringu. Verulega hefur fjölgað í þessum hópi í vetur.
Minnibolti Stúlkna:
Þjálfari Stefanía Ásmundsdóttir og síðar Lindsey Church.
Stúlkurnar fóru á Nettómótið í Keflavík og ljóst er eftir þá ferð að þar eru mikil efni á ferðinni.
Minnibolti yngri drengja:
Þjálfari: Guðjón Þorsteinsson.
Hópurinn var skráður á Nettómót en aðeins fjórir iðkendur fóru á endanum. Það var leyst með einum úr hópi minnibolta eldri. Miklar framfarir voru hjá þessum flokki á leiktíðinni.
Krílaboltinn:
Þjálfari: Shiran Þórisson.
Hér er um nauðsynlega nýjung að ræða hjá félaginu og verður spennandi að sjá hvort iðkendur skila sér upp í minniboltann. Engin félagsgjöld eru greidd í þessum aldurshópi og á það vafalaust þátt í góðri aðsókn.