Fréttir

Adam, Björn Ásgeir og Nökkvi kveðja

Körfubolti | 21.05.2018
Adam Smári, Nökkvi og Björn Ásgeir kveðja Vestra - í bili a.m.k.
Adam Smári, Nökkvi og Björn Ásgeir kveðja Vestra - í bili a.m.k.

Nú er ljóst að Vestri þarf að sjá á eftir þremur lykilleikmönnum síðasta timabils en þeir Adam Smári Ólafsson, Björn Ásgeir Ásgeirsson og fyrirliðinn Nökkvi Harðarson hafa allir ákveðið að söðla um. Við þökkum þessum þremenningum kærlega fyrir framlag þeirra til félagsins. Allir hafa þeir skilað frábæru starfi og er mikil eftirsjá af þeim bæði innan vallar sem utan. Þessir ungu leikmenn hafa allir nýtt tækifæri sín hjá félaginu vel og vaxið mikið sem körfuboltamenn. Það er mikils virði fyrir Vestra að ungir leikmenn sem hingað koma fái tækifæri til að blómstra og þroskasts í íþróttinni. Þótt nú skilji leiðir er ljóst að allir eru þeir velkomnir aftur vestur.

Nökkvi Harðarson hefur verið lengst þremenninganna innan vébanda Vestra.  Nökkvi var mikill hvalreki fyrir félagið þegar hann kom vestur 18 ára gamall. Á þessum tíma hefur hann tekið stórstígum framförum sem leikmaður og bætt leik sinn jafnt og þétt með hverju tímabilinu. Framlag Nökkva hefur ekki aðeins verið innan vallar því hann hefur frá upphafi einnig sinnt þjálfun af alúð og metnaði. Hluta af tímanum hér fyrir vestan nýtti Nökkvi til að ljúka stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði hvaðan hann útskrifaðist í desember 2016.

Adam Smári hefur verið hjá okkur í tvö ár og hefur rétt eins og Nökkvi stundað nám við MÍ. Adam hefur vaxið mikið sem leikmaður á þessum tíma og er alveg ljóst að þessi strákur getur náð langt ef hann heldur áfram á sömu braut. Adam hefur líka sinnt þjálfun yngri flokka nú síðast þjálfaði hann 7. flokk stúlkna með góðum árangri. Það verður gaman að fylgjast með Adam á næstunni í nýjum verkefnum.

Eins og fram kom í fréttum nýlega hefur Björn Ásgeir Ásgeirsson samið við Körfuknattleiksfélag Selfoss. Björn Ásgeir tók stór skref fram á við sem leikmaður hjá Vestra á síðasta tímabili. Hann fékk stórt hlutverk í liðinu sem hann reis svo sannarlega undir þrátt fyrir ungan aldur.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra þakkar þremenningunum samstarfið undanfarin ár og óskar þeim velfarnaðar á nýjum slóðum.

Deila