Framherjinn Adam Smári Ólafsson hefur samið við Körfuknattleiksdeild Vestra um að leika áfram með liðinu á komandi tímabili. Adam Smári kom til Vestra frá FSu fyrir síðasta tímabil og hefur sýnt og sannað að hann á framtíðina fyrir sér í íþróttinni. Samhliða æfingum, keppni og námi við Menntaskólann á Ísafirði hefur Adam Smári komið að þjálfun 7.-9. flokks stúlkna með góðum árangri.
Adam Smári er ungur og efnilegi leikmaður fæddur árið 1997. Hann var einn af lykilmönnum meistaraflokks í vetur, lék tuttugu og tvo leiki, var í byrjunarliðinu í þeim öllum og skilaði 7,4 stigum og 5,2 fráköstum að meðaltali í leikjunum. Auk þess var Adam máttarstólpi unglingaflokks félagsins og átti nokkra stórleiki á þeim vígstöðvum. Það mæddi því mikið á Adami síðasta vetur enda var hann valinn dugnaðarforkur liðsins á lokahófi þess með eftirfarandi umsögn: „Adam hefur sannarlega unnið fyrir þessum titli í vetur því hann hefur bæði leikið stórt hlutverk í meistaraflokki og unglingaflokki og oft leikið þrjá leiki á helgi án þess að blása úr nös eða kvarta yfir álagi.“
Stjórn Kkd. Vestra lýsir ánægju sinni með að hafa tryggt áframhaldandi samstarf við Adam Smára og hlakkar til að sjá þennan unga og efnilega leikmann vaxa og dafna hér vestra.
Deila