Fréttir

„Ætlum að setja tóninn strax“ KFÍ – FSu í kvöld!

Körfubolti | 10.10.2014
Birgir Örn Birgisson og lærisveinar hans í karlaliði KFÍ eru tilbúnir í slaginn í kvöld.
Birgir Örn Birgisson og lærisveinar hans í karlaliði KFÍ eru tilbúnir í slaginn í kvöld.

Karlalið KFÍ hefur leik í 1. deildinni með heimaleik í kvöld kl. 19.15 og mætir sterku liði FSu.  

 

Að sögn Birgis Arnar Birgissonar þjálfara KFÍ er góð stemmning í hópnum fyrir leikinn. „Það er tilhlökkun og spenningur í leikmönnum að byrja fyrsta leik vetrarins. Þetta er það sem við erum búnir að vera að æfa fyrir og menn eru tilbúnir í verkefnið. Það er virkilega gaman að byrja á heimaleik gegn einu af sterkari liðum deildarinnar og við ætlum að setja tóninn strax og sýna hvernig er að mæta okkur á heimavelli“ segir Birgir.

 

Þrátt fyrir köflótt undirbúningstímabil, með ljósum og dökkum punktum, er Birgir bjartsýnn fyrir leikinn í kvöld. „Þetta hefur verið dáldið púsl undanfarið, mikið af nýjum mönnum í liðinu og eðlilega tekur tíma fyrir menn að slípast saman. En loksins eru allir í hópnum heilir og síðustu viku höfum við náð að æfa vel með fullskipað lið svo þetta lítur vel út.“

 

Aðspurður um vinningslíkur í kvöld segir Birgir að þetta sé líklega 50/50 leikur. „FSu er með mjög sterkan hóp sem hefur spilað lengi saman og hafa auk þess bætt við sig mannskap frá því í fyrra. Ég met þá því sem eitt af sterkari liðum deildarinnar. En við erum á heimavelli og menn eru tilbúnir í slaginn og vel stemmdir“, segir Birgir og bætir því við að liðið muni berjast til síðasta blóðdropa í kvöld.

 

Þótt FSu hafi hafnað í sjönda sæti í fyrstu deildinni á síðasta tímabili er hópurinn þéttur og vel spilandi.  Verkefni kvöldsins er því verðugt og hvetjum við alla til að mæta á Jakann og setja tóninn með strákunum fyrir komandi tímabil!

 

Á leiknum verða til sölu árskort fyrir tímabilið sem bjóðast á frábæru verði eða aðeins 15.000 krónur. Kortið gildir á alla heimaleiki karla- og kvennaliðs KFÍ í vetur.  

 

Þeir sem ekki komast á leikinn í kvöld geta sem fyrr horft á hann í beinni útsendingu á KFÍ TV.

 

Deila