Fréttir

Allt á fleygiferð í Körfuboltabúðum KFÍ

Körfubolti | 05.06.2014

Rífandi gangur er í Körfuboltabúðum KFÍ en þær voru formlega settar á þriðjudagseftirmiðdag og er þetta sjötta árið í röð sem búðirnar fara fram.  Alls taka 90 krakkar á aldrinum 10-18 ára frá  átta félögum víðsvegar um land þátt í búðunum og hefur fjöldi iðkenda sjaldan verið meiri. Góður hópur foreldra og fararstjóra fylgir krökkunum og allir hjálpast að við að gera búðirnar sem best úr garði. Heimavist Menntaskólans á Ísafirði er fullskipuð og mikið gengur á í mötuneyti skólans þar sem þær Lúlú og Ella ráða ríkjum enda þarf mikinn mat ofan í krakka sem æfa fjórum sinnum á dag.

 

Gærdagurinn gekk eins og í sögu en Finnur Freyr Stefánsson, yfirþjálfari, gerði nokkrar breytingar á dagskránni frá því í fyrra og hafa þær mælst vel fyrir. Í gær hlýddu krakkarnir á fyrirlestur hjá Helenu Sverrisdóttur, landsliðskonu og atvinnumanni í körfubolta en hún er einn af aðalþjálfurum búðanna. Í dag skellti hópurinn sér út í góða veðrið í jógatíma hjá Gunnhildi Gestsdóttur, jógakennara á Ísafirði.

 

Veðrið leikur við iðkendur, þjálfara og gesti búðanna og spáin lofar góðu. Búðunum lýkur formlega kl. 15 á sunnudag, hvítasunnudag. Hægt er að fylgjast með gangi búðanna og sjá ógrynni af myndum á facebook "Körfuboltabúðir KFÍ". 

Deila