Fréttir

Arnar Smári, Blessed, Friðrik og James skrifa undir

Körfubolti | 07.06.2020
Leikmennirnir fjórir ásamt Pétri Má Sigurðssyni þjálfara Vestra.
Leikmennirnir fjórir ásamt Pétri Má Sigurðssyni þjálfara Vestra.
1 af 3

Um helgina skrifuðu fjórir ungir og efnilegir leikmenn undir samning við Körfuknattleiksdeild Vestra. Þetta eru þeir Arnar Smári Bjarnason, sem kemur frá Skallagrími, Blessed Parilla, Friðrik Heiðar Vignisson og James Parilla sem allir eru uppaldir Vestramenn.

Arnar Smári er fæddur árið 2000 og hefur leikið með Skallagrími upp alla yngri flokka. Hann lék 20 leiki með meistaraflokki Skallagríms á síðasta tímabili og var með 6,4 stig, 1,4 stoðsendingar og 1 frákast að meðaltali í leik. Arnar Smári var tvívegis í byrjunarliði Skallagríms á síðasta tímabili og átti sinn besta leik í annað af þeim skiptum gegn Hamri í framlengdum leik. Í leiknum sýndi Arnar svo sannarlega hvað í honum býr, skoraði 34 stig, gaf 4 stoðsendingar og tók 3 fráköst með alls 22 framlagspunkta.

Blessed Parilla er fæddur árið 2002 og hefur leikið upp alla yngri flokka Vestra. Hann steig sín fyrstu skref með meistaraflokki tímabilið 2018-2019. Á síðasta tímabili lék hann svo 9 leiki með meistaraflokki auk þess að vera í lykilhlutverki með drengjaflokki félagsins.

Friðrik Heiðar Vignisson er fæddur árið 2003. Hann er alinn upp á Hólmavík en hóf æfingar með Vestra á meðan hann bjó enn á Ströndunum en flutti á Ísafjörð fyrir tveimur árum. Friðrik hefur átt sæti í U15 og U16 landsliðum Íslands undanfarin ár. Hann steig sín fyrstu skref með meistaraflokki tímabilið 2018-2019 en lék á síðasta tímabili 17 leiki með meistaraflokki um leið og hann var lykilmaður í drengjaflokki Vestra.

James Parilla er fæddur árið 2003. Hann setig sín fyrstu skref með meistaraflokki á síðasta tímabili, var í leikmannahóp 17 sinnum og lék einn leik en var auk þess í lykilhlutverki í drengjaflokki Vestra.

Deila