Fréttir

B-liðið á toppinn eftir sigur í toppslagnum

Körfubolti | 08.11.2015

B-lið KFÍ fékk Kormák frá Hvammstanga í heimsókn á laugardaginn í 3. deild karla en fyrir leikinn voru bæði lið jöfn að stigum í efsta sæti.

Eftir jafnræði með liðunum í fyrsta leikhluta að þá settu heimamenn fluggírinn, eða hvað það er sem íþróttamenn langt gengnir á fertugs- og fimmtugsaldri kalla fluggír, og stungu af. Mest náðu B-liðsmenn 17 stiga forustu, 56-39, um miðjan þriðja leikhluta. Eftir það duttu menn í rölt&gun gírinn, rölta upp völlinn og vera helst búnir að skjóta áður en þeir næðu að taka þrjú skref frá miðju. Óhætt er að segja að sú taktík gekk ekki eins og best var á kosið og söxuðu gestirnir all verulega á forskotið. Minnst náðu þeir muninum niður í 7 stig þegar rúmlega tvær mínútur voru eftir af fjórða leikhluta. Nær komust þeir þó ekki 77-70 sigur Ísfirðinga staðreynd. 

Pétur Már Sigurðsson var aftur mættur á Jakann eftir að hafa sett eld að íþróttahúsi Akurnesinga í síðasta leik þegar hann endaði með 46 stig. Eitthvað var hann kaldari í þessum leik en hann bætti sér það upp með því að skjóta bara meira og endaði stigahæstur með 29 stig.

Fyrrum landsliðsmiðherjinn Birgir Örn Birgisson nennti einnig að mæta og áttu gestirnir fá svör við honum en hann skoraði 23 stig, reif niður 13 fráköst og varði 2 skot.

Shiran Þórisson, einvaldur B-liðsins, meira en þrefaldaði stigaskor sitt frá síðasta leik og gaf helminginn af stoðsendingum liðsins í leiknum og það þrátt fyrir að vera við það að detta um buxnaskálmarnar á stuttbuxunum sínum í hverju skrefi.

Hinn 42 ára efnilegi nýliði Jón Páll Hreinsson spilaði sinn fyrsta opinbera körfuknattleiksleik á ævi sinni í leiknum. Hann átti stórleik að margra sögn, ekki þó endilega okkar, og endaði með 5 villur og að minnsta kosti 3 stoðskrín á rúmlega 7 mínútum.

Halldór Gunnar Pálsson tók fram skóna aftur í leiknum og sýndi öllum hvers vegna Karl Jónsson, fyrrum þjálfari KFÍ, kallaði hann ryksuguna (því hann sogaði öll fráköst til sín) með því að rífa niður 6 fráköst á 6 mínútum sléttum.


Stigaskor og annað sem skiptir máli

  • Pétur Már 29 stig, 4 fráköst
  • Birgir Örn 23 stig, 13 fráköst
  • Shiran 19 stig, 5 stoðsendingar, 4 fráköst
  • Þórir 4 stig, 3 fráköst
  • Rúnar Ingi, 2 stig, 2 stolnir
  • Sturla 11 fráköst
  • Óskar Ingi 2 fráköst, 2 stolnir
  • Halldór Gunnar 6 fráköst
  • Kjartan 2 fráköst
  • Jón Páll 1 frákast, 5 villur, 3 stoðskrín

 

Deila