Fréttir

B-liðið með úthaldssigur á móti Grundarfirði

Körfubolti | 25.10.2015
Mekka Vestfirsks körfubolta: Bolungarvík.
Mekka Vestfirsks körfubolta: Bolungarvík.

B-lið KFÍ hóf leik í 3. deild karla á laugardaginn þegar það tók á móti Grundfirðingum í Gryfjunni í Bolungarvík.

Ísfirðingar tefldu fram miklu þungaviktarliði í leiknum, í kílóum talið, og mátti þar sjá fyrrum landsliðsmenn, Íslandsmeistara, 1. deildarmeistara og nokkra gaura sem horfðu á EM í körfu í haust.

B-liðsmenn byrjuðu leikinn af krafti og náðu mest 11 stiga forustu um miðjan leikinn. Heldur fór að draga af þeim þegar leið á lokafjórðunginn en uppi stóðu þeir þó sem sigurvegarar, 62-57.

Fyrrverandi landsliðsmaðurinn og margfaldi Íslandsmeistarinn, Birgir Örn Birgisson, átti stórleik undir körfunni og endaði með sannkallaða tröllatvennu, 25 stig og 20 fráköst. Heyrst hefur að hann ætli sér að nota upptöku leiksins sem kennslutæki fyrir A-lið KFÍ í hvernig eigi að stíga út.

 



Hinn 15 ára gamli Haukur Jakobsson átti svo frábæra innkomu í sínum fyrsta meistaraflokks leik en hann setti niður 11 stig, þar af 3 þriggja stiga körfur. Hann átti einnig lykilinnkomu á lokamínútunum þegar hann kom inn með hraða og snerpu sem var gífurlegur kostur þar sem heldri og eldri leikmenn liðsins voru hættir að geta hlaupið til baka í vörn, ýmist sökum aldurs, súrefnisskorts, yfirþyngdar, skorts á vilja eða öllu fyrrgreindu.



Sveitarstjórinn, fyrirsætan, boltasparkarinn, fyrrverandi alþingismaðurinn og fyrirliði B-liðsins, Pétur G. Markan, lék hér sinn fyrsta opinbera körfuknattleiksleik á ferlinum og eins og sönnum prímadonnum sæmir mætti hann í hús þremur mínútum áður en flautað var til leiks. Þrátt fyrir að hafa eytt megninu af spilunartíma sínum í heimspekilegar viðræður við þjálfarann um varnartaktíkt, nánar tiltekið hvers vegna hann þyrfti að dekka tvo leikmenn á meðan þjálfarinn dekkaði engann, að þá fann hann sér þó tíma til þess að eiga eitt besta tilþrif leiksins er hann "klobbaði" leikstjórnanda Grundfirðinga með glæsilegum hætti.

 

 

KFÍ

Birgir Örn-  25 stig, 20 fráköst

Shiran Þórisson - 16 stig, 4 þristar, 4 stoðsendingar

Haukur Rafn Jakobsson - 11 stig

Stígur Berg - 5 stig, 10 fráköst

Vésteinn Rúnarsson - 5 stig, 4 fráköst
Aðrir komust ekki á blað í stigum eða fráköstum sökum þess að Shiran sendi aldrei á þá og Biggi tók öll fráköstin.

 

Grundarfjörður
Przemyslaw Andri Þórðason 16 stig, 8 fráköst, 5 stoðsendingar
Hafsteinn Mar Sigurbjörnsson - 13 stig
Rúnar Þór Ragnarsson - 10 stig, 11 fráköst
Aðalsteinn Jósepsson - 4 stig, 12 fráköst
Kári Gunnarsson - 2 stig
Ragnar Smári Guðmundsson - 2 stig

Deila