Fréttir

Bara stuð í Bolungarvík

Körfubolti | 16.10.2011

Það vantaði ekkert uppá orkuna hjá krökkunum 25 sem tóku þátt í innanfélagsmóti KFÍ í Bolungarvík í gær. Mótinu var skellt á með stuttum fyrirvara þegar ljóst var á föstudagskvöld að slá þurfi á frest fyrirhuguðu Vestfjarðamóti á Patreksfirði vegna veðurs. Ætlunin var að láta KFÍ krakka á aldrinum 9-12 ára etja kappi við jafnaldra sína í Íþróttafélaginu Herði á Patreksfirði um helgina en það verður að bíða betri tíma.

 

Eftir tilþrifamikla leiki gærdagsins, þar sem án efa mátti sjá margar af framtíðarstjörnum KFÍ, skellti allur hópurinn sér í sund í boði Bolvíkinga. Hópurinn gisti siðan í Grunnskólanum í Bolungarvík í nótt eftir að hafa m.a. skóflað í sig býsn af pizzum og spilað bingó. Í morgun mættu krakkarnir síðan á sameiginlega æfingu í Víkinni undir stjórn Zeko og Guðna Guðna.

 

Ferðin gekk því í alla staði mjög vel en hún hefði þó ekki verið möguleg nema vegna dyggrar aðstoðar fjölmargra sem brugðust hratt og vel við með nær engum fyrirvara. Unglingaráð KFÍ vill sérstaklega þakka eftirfarandi aðilum fyrir hjálpina í tengslum við helgina: Starfsfólki Íþróttamiðstöðvarinnar í Bolungarvík, skólastjóra Grunnskólans í Bolungarvík, Íslandssögu, Gamla bakaríinu, Vifilfelli, Samkaup og síðast en ekki síst Sóphusi Magnússyni, sem sá um að koma hópnum til og frá Víkinni.

 

Krakkarnir fengu virkilega góða æfingu í að spila um helgina og ættu að vera ágætlega undirbúin fyrir Íslandsmótin sem framundan eru en fyrstu túrneringar þessa aldurshóps eru um komandi helgi þegar 7.  flokkur stúlkna keppir á Hvammstanga og minnibolti eldri drengja heldur til Njarðvíkur.

Deila