Fréttir

Baráttan um deildarmeistaratitilinn er hafin!

Körfubolti | 08.02.2018
Meistaraflokkur Vestra mætir Gnúpverjum á föstudag. Ljósmynd: Ágúst Atlason www.gusti.is
Meistaraflokkur Vestra mætir Gnúpverjum á föstudag. Ljósmynd: Ágúst Atlason www.gusti.is
1 af 2

Á morgun, föstudaginn 9. febrúar, mæta Gnúpverjar í heimsókn á Jakann og etja kappi við Vestra í 1. deild karla í körfubolta. Leikurinn hefst að vanda kl. 19:15 en fyrir leik verður boðið upp á ljúffengar currywurst pylsur að hætti Berlínarbúa. Lið Vestra situr í öðru sæti deildarinnar og er ósigrað á heimavelli en nýliðar Gnúpverja eru í sjönda sæti. Gestirnir eru þó til alls líklegir enda hafa þeir styrkt hópinn nýverið og hafa sýnt að þeir eru til alls líklegir.

Spennan á toppi deildarinnar er gríðarleg. Auk Vestra hafa lið Skallagríms, Breiðabliks og Hamars skorið sig frá öðrum liðum og munar aðeins einum til tveimur sigrum á liðunum fjórum. Fullyrða má að þessi lið muni berjast um deildarmeistaratitilinn á næstu vikum. Með sterkum útisigri á Breiðabliki í síðustu umferð má segja að Vestri hafi gert tilkall til titilsins því sigurinn tryggði okkar mönnum vinninginn í innbyrðisviðureignum liðanna. Hver einasti leikur sem eftir er hefur mikla þýðingu og ljóst að ekkert þessara fjögra liða má við því að tapa leik í þessari hörðu baráttu um titlinn eða heimavallarréttinn í úrslitum. Við hvetjum því alla Ísfirðinga og nærsveitarfólk til að fjölmenna á Jakann og styðja við strákana við að halda heimavíginu og auka möguleikana á titilinum.

Eins og allir vita er Ísafjörður vasabrotsútgáfa af heimsborg. Fyrir leikinn á föstudag verður, eins og fyrr segir, boðið upp á einstaklega ljúffengar currywurst pylsur að hætti Berlínarbúa ásamt kartöflusalati og sósu fyrir litlar 1.000 krónur ásamt drykk. Það er meistarakokkurinn Þorsteinn F. Þráinsson, stundum kenndur við Muurikka, sem sér um eldamennskuna.

Þeir sem ekki komast á Jakann af góðum og gildum ástæðum geta að sjálfsögðu horft á leikinn í beinni útsendingu á Jakinn-TV.

Áfram Vestri!

Deila