Fréttir

Baráttusigur á Valsmönnum

Körfubolti | 22.11.2014
Birgir Björn átti góðan leik í dag. Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson.
Birgir Björn átti góðan leik í dag. Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson.

Karlalið KFÍ fór með sigur af hólmi á Jakanum fyrr í dag gegn Valsmönnum í 1. deildinni. Þetta var kærkominn sigur á heimavelli og með honum er ísinn brotinn. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en undir lokinn sýndu okkar strákar baráttu og yfirvegun sem skilaði sigri.

 

Líkt og svo oft áður í vetur voru okkar menn seinir í gang og Valsarar leiddu í upphafi leiks. Á fimmtu mínútu náði Nebosja að jafna leikinn með því að setja niður skot undir körfunni, fá villu að auki og klára vítið. Valsarar komust aftur yfir en KFÍ menn náðu góðum spretti og leiddu með tveimur stigum 19-17 þegar fyrsti fjórðungur var úti.

 

Valsarar fóru betur af stað í öðrum fjórðungi, voru fljótir að jafna og leiddu leikinn allt þar til að Florijan Jovanov kom KFÍ yfir með góðri þriggja stiga körfu á fimmtándu mínútur og kom KFÍ í 25-24. Florijan hafði komið inn á skömmu áður og hleypti miklum krafti í KFÍ liðið með baráttu og hvatningu. Birgir Björn átti svo frábæran kafla síðustu fimm mínútur hálfleiksins og setti niður 8 stig inn í teignum. KFÍ leiddi því í hálfleik 37-33.

 

Í byrjun seinni hálfleiks náðu Valsmenn að jafna en í stöðunni 40-40 setti Pance niður þriggja stiga skot og í kjölfarið kom góður kafli hjá KFÍ. Þar munaði miklu um gott framlag frá Björgvin Snævari Sigurðssyni sem tók tvö sóknarfráköst og setti fjögur stig með stuttu millibili auk þess að berjast vel í vörninni. Valsarar náðu smám saman að komast aftur inn í leikinn og jöfnuðu 51-51 á þrítugustu mínútu og leiddu með einu stigi 53-54 þegar fjórðungurinn var úti.

 

Líkt og hina fjórðungana komu Valsarar aftur sterkari inn í upphafi þess fjórða og bættu í forystuna. Mest komust þeir í átta stiga forskot 54-62 á þrítugustu og fimmtu mínútu. Birgir þjálfari KFÍ brá þá á það ráð að beita pressuvörn sem virtist koma Valsmönnum nokkuð úr jafnvægi og skilaði KFÍ nokkrum stolnum boltum. Síðustu sex mínútur leiksins stjórnuðu okkar menn leiknum og sýndu yfirvegun, skynsemi og baráttu sem skilaði að lokum góðum sigri 71-62.

 

Nebojsa átti góðan leik í dag líkt og svo oft áður. Hann setti niður 24 stig tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Birgir Björn átti líka góðan leik skoraði 21 stig og tók 13 fráköst. Pance Ilievski setti 11 stig og Björgvin Snævar 9.

 

Hjá gestunum var Illugi Auðunsson bestur en hann skoraði 15 stig og tók 12 fráköst. Danero Thomas kom næstur með 14 stig 9 fráköst og 4 stoðsendingar.

Deila