Fréttir

Bikarsigur á Höfn – KR í 16 liðar úrslitum

Körfubolti | 17.10.2017
Nebojsa fer að körfunni á sunnudag. Ljósmynd: Þorvarður Árnason, Facebook síða Kkd Sindra.
Nebojsa fer að körfunni á sunnudag. Ljósmynd: Þorvarður Árnason, Facebook síða Kkd Sindra.

Vestramenn lögðu á sig ferðalag landshornanna á milli, í bókstaflegum skilningi, um síðustu helgi þegar þeir léku við annarar deildar lið Sindra á Höfn í Hornafirði í 32 liða úrslitum Maltbikarsins á sunnudag. Vestramenn höfðu góðan sigur 68-106 og halda því áfram í 16 liða úrslit. B-lið Vestra tók einnig þátt í bikarkeppninni og mætti KR-B en mátti sætta sig við tap á heimavelli. Jakinn-TV hefur fjallað ítarlega um þann leik. Í hádeginu í dag dróst Vestri svo á móti sjálfum Íslands-  og bikarmeisturum KR í 16 liða úrslitunum.

Sindramenn lögðu mikið í þennan leik og var umgjörð hans að flestu leyti til fyrirmyndar. Leikurinn var sýndur beint á Facebook síðu Sindra og leikmenn liðsins leiddu unga körfuboltaiðkenndur inn á völlinn í liðskynningu. Það eina sem vantaði upp á var lifandi tölfræðilýsing á leiknum. Vonandi verður tölfræðiskráningin þó framkvæmd eftir á eins og hægt er að gera. Þótt KKÍ hafi undanfarin misseri verið í átaki til að efla þekkingu á tölfræðiskráningu sýnir þetta dæmi ágætlega hve erfitt getur reynst fyrir lítil félög að uppfylla slíkt. En það er önnur saga.

Sindramenn komu öflugir til leiks og leiddu eftir fyrsta fjórðung. Vestramenn náðu þó að hrista af sér ferðaslenið í öðrum leikhluta og leiddu í hálfleik með 9 stigum. Í síðari hálfleik settu okkar menn svo í fluggíri og má segja að leiðir hafi skilið þá.

Stig Vestra: Nebojsa 23, Nemanja og Adam 21 stig hvor. Björn Ásgeir 16. Nökkvi 13, Gunnlaugur 6, Ingimar 3. Stig Sindra: Hallmar Hallson með 20 stig og Yima Chia-Kur fyrrum leikmaður Vestra og núverandi þjálfari Sindra með 15 stig.

Deila