Fréttir

Borce heldur námskeið fyrir yngri flokka KFÍ

Körfubolti | 25.02.2015
Borce Ilievski í Körfuboltabúðum KFÍ 2014
Borce Ilievski í Körfuboltabúðum KFÍ 2014

Okkar eini sanni Borce Ilievski er væntanlegur til Ísafjarðar um komandi helgi þar sem hann mun halda daglangt námskeið fyrir yngri flokka KFÍ. Námskeiðið fer fram í íþróttahúsinu við Torfnes laugardaginn 28. febrúar og er ætlað 10 ára iðkendum og eldri. Það hefst stundvíslega kl. 13.30 og mun standa fram undir kl. 18. 

 

Farið verður í fjölbreyttar tækniæfingar, stöðvar verðar settar upp og æfingarnar kryddaðar með leikjum og spili. Borce til aðstoðar verða leikmenn meistaraflokka karla og kvenna. Það ætti því engum áhugasömum körfuboltakrökkum að leiðast á laugardaginn.

 

Borce þarf vart að kynna en hann var um árabil þjálfari hjá KFÍ, byrjaði sem yfirþjálfari yngri flokka og varð síðar þjálfari meistaraflokks karla. Hann er nú yfirþjálfari yngri flokka Breiðabliks auk þess sem hann hefur tekið að sér yfirþálfunina í Körfuboltabúðum KFÍ sem fram fara á Ísafirði 2.-7. júní n.k.

 

Námskeiðið á laugardaginn er í boði KFÍ og Borce og er því krökkunum að kostnaðarlausu. Boðið verður upp á ávexti og holla hressingu á milli æfinga.

Deila