Fréttir

Deildarleikur á föstudag og bikar á sunnudag

Körfubolti | 13.12.2018
Meistaraflokkur karla tekur á móti Selfossi á föstudag í deildinni og úrvalsdeildarliði Hauka í bikarnum á sunnudag.
Meistaraflokkur karla tekur á móti Selfossi á föstudag í deildinni og úrvalsdeildarliði Hauka í bikarnum á sunnudag.

Það verður nóg að gera hjá meistaraflokki karla í körfubolta um helgina. Á föstudag koma Selfyssingar í heimsókn og mæta okkar mönnum í síðasta heimaleiknum í deildinni á þessu ári. Á sunnudag mætir svo úrvalsdeildarlið Hauka á Jakann í 16-liða úrslitum Geysisbikarsins.

Leikurinn gegn Selfossi á föstudag hefst að vanda kl. 19:15 en um klukkan 18:30 verður grillið orðið heitt með snarkandi hamborgurum sem fást fyrir litlar 1.000 kr. með gosi.

Selfyssingar eru í sjötta sæti deildarinnar með þrjá sigra og og sex töp. Þeir eru sýnd veiði en ekki gefin og sýndu að þeir eru til alls líklegir með því að sigra Hött á útivelli fyrr í haust. Okkar menn voru óheppnir að ná ekki sigri gegn Fjölni á útivelli í síðustu umferð og hefna þannig fyrir eina tapleik liðsins á heimavelli. Strákarnir munu án efa leggja allt í sölurnar að landa sigri gegn Selfyssingum á morgun!

Á sunnudag mætir svo úrvalsdeildarlið Hauka í heimsókn á Jakann í 16 liða úrslitum Geysisbikarsins. Leikurinn hefst kl. 16:00 og verður að sjálfsögðu í boði ýmislegt gúmmelaði í sjoppu Barna- og unglingaráðs á leiknum.

Haukar eru með sterkt lið og eru sem stendur í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar. Vestri sat hjá í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar og því er þetta fyrsti leikur liðsins í keppninn. Haukar mættu Þór Akureyri í 32 liða úrslitunum og unnu þann leik með þrettán stiga mun.

Við hvetjum alla til að mæta á Jakann um helgina og styðja strákana.

Jakinn-TV sýnir að sjálfsögðu beint frá báðum leikjum fyrir þá sem eru staddir utan stór-Ísafjarðarsvæðisins.

Deila