Fréttir

Einn sigur og eitt tap gegn ÍA

Körfubolti | 31.01.2016

Lið KFÍ í meistaraflokki karla mættu liðum ÍA í sitthvorum leiknum síðastliðinn föstudag. Í 1. deild mættust aðallið félaganna en strax að þeim leik loknum mættust B-liðin í leik í 3. deild. Skemmst er frá því að segja að KFÍ tapaði 1. deildar leiknum 69-77 en KFÍ-B sigraði hinsvegar B-lið ÍA örugglega 86-69.

KFÍ – ÍA 1. deild karla

Framanaf var leikurinn jafn en þó voru Skagamenn skrefinu á undan og KFÍ komst aldrei nær en að jafna leikinn í tvígang í fyrsta leikhluta. Skagamenn spýttu svo í lófana og leiddu 10-22 þegar fyrst fjórðungur var úti.

Sjá: Troðsla Nebojsa á móti ÍA

Í öðrum fjórðungi náði KFÍ góðum spretti og minnkaði muninn í 5 stig 29-34 í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks náði KFÍ að jafna 34-34 en nær komust drengirnir ekki og var hlutskipti KFÍ að elta það sem eftir lifði leiks.

Hjá KFÍ var Nebojsa Knezevic stigahæstur með 20 stig auk þess sem hann tók 11 fráköst. Birgir Björn Pétursson kom næstur með 18 stig og 10 fráköst og Kjartan Helgi Steinþórsson bætti við 17 stigum.

Hjá ÍA var Sean Wesley Tate atkvæðamestur með 28 stig en talsvert hægðist þó á honum í seinni hálfleik eftir að Hákon Ari Halldórsson var settur honum til höfuðs.

Tölfræði leiksins má nálgast hér.

 

KFÍ-B – ÍA-B 3. deild karla

Eftir upphitunarleik A-liðanna að þá var komið að stórleik kvöldsins í  3. deildinni þar sem KFÍ-b og ÍA-b mættust í beinni útsendingu á Jakinn TV.

Akurnesingar telfdu einungis fram 6 leikmönnum í leiknum þar sem heimamenn höfðu notað ítök sín hjá flugfélaginu og fengið þá til að snúa við vélinni sem innihélt restina af liðinu.

Ísfirðingar mættu hins vegar með fullskipað lið og tók öll völd á fyrstu mínútum leiksins og eftir rúmlega 5 mínútur var staðan orðin 17-5 heimamönnum í vil.

Þeir urðu þó fyrir miklu áfalli í öðrum leikfjórðung er Kjartan Davíðsson meiddist illa á hné og var borinn af leikvelli. Bugaðir, en ekki brotnir, héldu heimamenn þetta út og unnu að lokum öruggan 86-69 sigur.

B-liðið situr sem stendur í öðru sæti 3. deildarinnar með 7 sigra og 2 töp sem grunsamlega hefur ekkert verið fjallað um á miðlum félagsins.

Athygli vakti að sjálftitlaður fyrirliði og andlit B-liðsins út á við, Pétur Georg Markan, var fjarri góðu gamni eftir að hafa haft hörð orð á samfélagsmiðlunum um meinta slæglega frammistöðu spilandi einvalds B-liðsins, Shirans Þórissonar, á bæði víta- og hliðarlínunni í síðasta leik.

 

 

Ekki virðist hafa náðst samkomulag á milli félagsins og stjörnunnar um þetta miðað við fjarveru hans en samkvæmt heimildum síðunar hefur hann endureist körfuknattleiksdeild Geislans í Súðavík í mótmælaskyni þar sem hann er fyrirliði, vítaskytta, markahæsti. harðasti og jafnframt eini leikmaðurinn.

Í ótengdum fréttum þá setti Shiran öll víti sín í leiknum.

Stigaskor KFÍ
Florijan Jovanov 16 stig, 5 villur

Birgir Örn Birgisson 14 stig

Jóhann Friðriksson 13 stig

Daníel Freyr Friðriksson 11 stig

Björn Jónsson 8 stig

Rúnar Guðmundsson 7 stig

Helgi Bergsteinsson 7 stig

Ingi Björn Guðnason 4 stig, 5 villur

Sturla Stígsson 2 stig

Shiran Þórisson 2 stig

Óskar Ingi Stefánsson 2 stig

Kjartan Davíðsson 0 stig

Deila