Fréttir

Elstu strákarnir héldu sæti sínu í C-riðli

Körfubolti | 27.11.2016
Matarlystin er sjaldan langt undan í keppnisferðum.
Matarlystin er sjaldan langt undan í keppnisferðum.

Rúm vika er nú liðin síðan 10. flokkur drengja lagði leið sína suður á bóginn til að  taka þátt í sínu öðru fjölliðamóti í vetur - helgina 19.-20. nóvember. Síðbúin umfjöllunin skrifast á annir hjá fréttaritara. Gestgjafar að þessu sinni voru Haukar í Hafnarfirði en keppt var í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Lið Tindastóls og Grindavíkur tóku einnig þátt auk Vestra og heimamanna. Spilaðir voru þrír leikir á lið.

Lið Vestra skipuðu þeir Þorleifur Ingólfsson, Daníel Wale Adeleye, Blessed Parilla, James Parilla, Hilmir Hallgrímsson, Egill Fjölnisson, Stefán Snær Ragnarsson og Friðrik Vignisson. Hugi Hallgrímsson var fjarri góðu gamni að þessu sinni vegna veikinda. Nebojsa Knezevic stýrði liðinu í fjarveru Yngva Gunnlaugssonar, sem er þjálfari drengjanna.

Vestri hóf leik gegn Tindastóli á laugardag. Jafnræði var með liðunum framan af leik og jafnt í hálfleik, 19-19. Mörg góð færi fóru síðan forgörðum hjá Vestra í leiknum og hrósuðu Skagfirðingar sigri að lokum, 46-33.

Fyrri leikur Vestra  á sunndeginum var gegn heimamönnum í Haukum. Skemmst er frá því að segja að Haukar nýttu sér fjölmennið og pressuðu stíft allan völlinn og sömuleiðis gekk Vestra illa að finna glufur á svæðisvörn Hauka. Sanngjarn sigur Hauka staðreynd, 52-30.

Lokaleikur Vestra var gegn Grindvíkingum og var sá leikur um leið uppgjör um hvort liðið héldi sér í riðlinum. Vestramenn mættu sprækir til leiks þrátt fyrir að vera spila sinn annan leik í röð. Þeir voru einbeittir og hungraðir í sigur og uppskáru svo sannarlega eftir því. Grindvíkingar misstu dampinn eftir því sem leið á leikinn og náðu engan veginn að halda í okkar menn. Lokatölur 76-37 fyrir Vestra og áframhaldandi sæti í C-riðli tryggt.

Deila