Fréttir

Enn eitt naumt tap

Körfubolti | 31.01.2015
Birgir Björn á ferðinni undir körfunni í gær. Hann var stigahæstur heimamanna með 19 stig. Ljósmynd: Baldur Smári Ólafsson.
Birgir Björn á ferðinni undir körfunni í gær. Hann var stigahæstur heimamanna með 19 stig. Ljósmynd: Baldur Smári Ólafsson.

Hann var ekki mikið fyrir augað leikur KFÍ og Hamars í 1. deild karla í gærkvöldi. Bæði lið áttu slakann leik en því miður var leikur heimamanna snöggt um verri og því lauk honum með sigri gestanna 65-69.

 

Hamarsmenn byrjuðu mun betur í leiknum og líkt og í nokkrum leikjum í vetur var eins og KFÍ menn mættu fimm mínútum of seint til leiks enda var staðan 2-10 eftir fimm mínútna leik. Ástand heimamanna lagaðist lítið og mestur varð munurinn á áttundu mínútu þegar 17 stig skildu liðin að 3-20. Upp úr því náðu KFÍ menn að rétta úr kútnum, það kviknaði aðeins í þeim þegar Helgi Bergsteinsson kom inn á og setti þrist. Í kjölfarið kom góður kafli og náðu heimamenn að minnka muninn í 11 stig 10-21 þegar fjórðungurinn var úti.

 

Það var eins og allt annað KFÍ lið mætti á völlinn í byrjun annars fjórðungs. Birgir Örn þjálfari hefur dregið fram skóna á ný og hann hóf sjálfur leik í öðrum fjórðungi. Hamarsmenn gerðu talsvert af mistökum sem KFÍ nýtti sér auk þess sem svæðisvörin var þéttari. Í hálfleik skildu aðeins 3 stig liðin að 32-35.

 

Í þriðja fjórðungi hélt áhlaup KFÍ áfram af einn meiri krafti og á tuttugustu og annari mínútu náði KFÍ að jafna leikinn með þriggja stiga körfu frá Björgvini Snævari. KFÍ virtist vera að ná tökum á leiknum á þessum tímapunkti og náðu mest 9 stiga forystu 50-41. Þá fór aftur að síga á ógæfuhliðina og Hamarsmenn komust yfir á ný í blálok fjórðungsins þegar Þorsteinn Gunnlaugsson stal boltanum og skoraði í kjölfarið.

 

Loka fjórðungurinn var svo í járnum allan tímann og lengst af munaði aðeins 1 til 3 stigum á liðunum en þó voru Hamarsmenn alltaf skrefinu á undan. Á loka mínútu leiksins var staðan 64-68 gestunum í vil og KFÍ í sókn. Örn Sigurðsson braut þá á Birgi Erni þjálfar sem klikkaði á öðru vítinu en minnkaði muninn í þrjú stig. KFÍ náði sóknarfrákastinu og Nebojsa fékk tækifæri til að jafna leikinn með þriggja stiga skoti sem klikkaði. Hamarsmenn voru strax sendir á vítalínuna og Bjarni Rúnar Lárusson klikkaði á öðru vítinu sem gaf KFÍ annan möguleika á að minnka muninn þegar fáeinar sekúndur voru eftir. Nebojsa fékk boltann í horninu fyrir utan þriggja stiga línuna með mann í sér og lét vaða á körfuna en klikkaði. Áhorfendur voru reyndar á því að brotið hefði verið á Nebojsa í skotinu en dómarar leiksins voru ekki á sama máli og því fór sem fór. Hamar sigraði með fjórum stigum 65-69.

 

Eins og fyrr segir var leikur beggja liða frekar lélegur. Þegar rýnt er í tölfræðina má sjá að liðin töpuðu jafn mörgum boltum eða 21. Bæði lið hittu einnig frekar illa, Hamarsmenn með 41% nýtingu í tveggja stiga skotun en KFÍ með 52%. Þriggja stiga nýtingin var einnig slæm eða 19% hjá KFÍ en 21% hjá Hamri. Veikleiki KFÍ fólst kannski ekki síst í því í þessum leik að talsvert fleiri skottilraunir komu fyrir utan þriggja stiga línuna en fyrir innan hana og þegar nýting er aðeins 19% er ekki að sökum að spyrja. Einnig munaði nokkru á fráköstum því Hamarsmenn tóku 11 fráköstum meira en KFÍ.

 

Birgir Björn Pétursson var stigahæstur í liði KFÍ með 19 stig og 13 fráköst, Nebojsa var með 15 stig en aðrir minna.

Hjá gestunum átti Julian Nelson góðan leik, skoraði 31 stig og tók 12 fráköst, Bjarni Rúnar Lárussin var með 15 stig og 8 fráköst en aðrir með minna.

 

Heildar tölfræði leiksins er aðgengileg á vef KKÍ.

Deila