Fréttir

Epson deildin 2000-2001: KFÍ

Körfubolti | 26.09.2000

Við mætum með gjörbreytt lið frá því í fyrra. Liðið missti eftir síðasta tímabil þá Tómas Hermannsson, Halldór Kristmannsson, Þórð Jensson og Pétur Má Sigurðsson auk þriggja útlendinga sem voru hjá liðinu. Alls eru þetta sjö leikmenn úr tíu manna hópnum síðan í fyrra. Sumarið hefur því farið í það hjá okkur að leita að leikmönnum til að fylla skörð þeirra sem voru.

Við höfum fengið Svein Blöndal úr KR, fjölhæfan leikmann sem getur skorað körfur allsstaðar af vellinum og hann er einnig þeim kostum búinn að geta spilað vörn á sér stærri menn. Ingi Vilhjálmsson er einnig alinn upp í KR, strákur sem lítið hefur spilað síðustu tvö keppnistímabilin en er nú óðum að ná góðum takti og ég veit að hann á eftir að standa undir væntingum í vetur. Magnús Þór Guðmundsson er líkamlega sterkur strákur sem kemur til með að leysa af í fjarka og fimmu stöðurnar. Hann er gríðarlega sterkur í fráköstunum og getur haldið stærri leikmönnum niðri.

Branislav Dragojlovic er leikmaður sem okkur áskotnaðist frá Serbíu og um leið og hann hefur tileinkað sér íslenska boltann á hann eftir að hjálpa okkur mikið. Sterkur skotmaður og keyrir vel upp að körfunni. Dwayne Fontana heitir bandaríski leikmaðurinn okkar og hann er gríðarlegur fengur fyrir okkur. Hann býr yfir mikilli alþjóðlegri reynslu og sýndi það og sannaði á æfingamótinu í Danmörku að hann getur spilað á móti mun hávaxnari leikmönnum og leikið þá grátt. Þá kemur Steve Ryan, 206 cm miðherji, til okkar og verður löglegur þann 13. október. Með hann og Fontana inni í teignum og Magnús til að leysa þá af erum við í góðum málum.

Þá eru ótaldir heimamenn okkar. Hrafn Kristjánsson er óðum að ná sínum fyrri styrk eftir erfið nárameiðsl síðasta vetur. Hann hefur bætt líkamsstyrk sinn mikið í sumar og á eftir að vera sterkari en nokkru sinni fyrr. Baldur Ingi hefur fyrir löngu sannað sig sem eina af bestu þriggja stiga skyttum landsins og með sterka leikmenn undir körfunni á hann eftir að fá mikið af opnum skotum. Gestur Sævarsson var aftarlega í leikmannahópnum síðasta vetur en fær nú tækifæri til að láta meira að sér kveða. Enginn efast um hæfileika stráksins en það er spurning hvernig hann bregst við aukinni ábyrgð. Guðmundur Guðmannsson gæti gert góða hluti í vetur, sérstaklega varnarlega séð og Halldór Pálsson, 16 ára strákur er mikið efni og gæti komið hressilega á óvart. Fleiri leikmenn gætu látið að sér kveða og það er ljóst að mikil barátta getur orðið um níunda og tíunda sætið í leikmannahópnum sem er af hinu góða.

Annars hefur undirbúningurinn gengið illa hjá okkur. Við náðum ekki leikhæfu liði fyrr en um miðjan september og við höfum aðeins leikið fjóra æfingaleiki á móti mun sterkari andstæðingum. Markmiðið hjá okkur getur því ekki verið neitt annað en að tryggja stöðu liðsins í deildinni. Við þurfum fyrstu fimm til sex leikina til að slípa liðið endanlega saman og þegar því er náð erum við í sjálfu sér ekki með lakari mannskap en mörg önnur lið í deildinni. Og ef þessir strákar finna sig vel og hafa gaman af því að spila saman hef ég trú á að við getum gert ágæstis hluti þegar líður á mótið.

En eins og staðan er, er engin ástæða til neinnar bjartsýni fyrir okkur, eftir þennan fádæma lélega undirbúning. Þetta verður vinna og aftur vinna og við þurfum virkilega að hafa mikið fyrir því að ná markmiðum okkar.

Karl Jónsson

Deila