Fréttir

Feðradagur á aðfangadag hjá KFÍ

Körfubolti | 19.12.2012

Jæja gott fólk. Þá er komið að öldnum sið hjá KFÍ. Í um 40 ár hefur verið jólabolti á aðfangadag og erum við ekkert á þeim stuttbuxunum að breyta þeim sið. Við byrjum með ungviðin okkar eða krakka frá 0-14 ára og verður sá bolti frá 11-12 og beinum við þeim tilmælum að feður komi með krakkana sína og gefi konum sínum frí. Þetta er þó langt í frá að vera bann á konur okkar enda betri helmingurinn klárlega (pólitískt rétt).

 

Við eigum von á einhverjum glaðning frá ónefndum aðila sem kominn er langt frá og er tímasetning hans háð duttlungum hverju sinni, en við reiknum þó með að hann láti sjá sig þegar hálfnaður er tíminn eða um 11.30.

 

Þegar þessum tíma er lokið eða kl.12 þá taka við eldri iðkendur okkar og eru frá kl.12-14. Öllum er boðið frá KFÍ og eru allir velkomnir til okkar. Það verður létt á þessu og góða skapið er það eina sem við rukkum inn. Fílupúkar fara í köttinn hjá eldri iðkendum ásamt því að lenda í Gaua.Þ. og mælum við ekkert með því. Það á einnig að ver aóþarfi að skrifa það hér að þetta er fyrir alla eldri iðkenda KFÍ stúlkur og pilta. Koma svo láta sjá sig.

 

Við viljum taka fram við iðkendur okkar að sturturnar verða ekki í notkun, þær eru komnar í jólafrí og biðjum við því alla að koma þannig klædd til leiks og aftur heim.

 

Það er sem sagt glæsileg dagskrá á aðfangadag. Leikur og síðan er haldið heim og hringt inn jólin.

 

Áfram KFÍ.

Deila