Fréttir

Fjölmennasti hópur frá upphafi á leið á Nettómótið

Körfubolti | 03.03.2016
Þessar flottu stelpur í minnibolta eldri er langflestar að skella sér á Nettómótið um helgina undir stjórn Stefaníu Ásmundsdóttur þjálfara.
Þessar flottu stelpur í minnibolta eldri er langflestar að skella sér á Nettómótið um helgina undir stjórn Stefaníu Ásmundsdóttur þjálfara.

Á morgun, föstudag, halda næstum 50 körfuboltakrakkar af norðanverðum Vestfjörðum á hið árlega Nettómót í Reykjanesbæ sem er stærsta og glæsilegasta körfuboltamót landsins. Þetta er fjölmennasti hópurinn sem hefur farið héðan frá upphafi en hátt í 20 þjálfarar, fararstjórar og liðsstjórar  fylgja krökkunum eftir allt mótið að ótöldum foreldrum, systkinum og öðrum ættingjum sem jafnan fjölmenna á mótið.

Áralöng hefð er fyrir þátttöku Vestfirðinga á Nettómótinu í gegnum Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar en það er Barna- og unglingaráð félagsins sem hefur veg og vanda að skipulagningu ferðarinnar.  KFÍ hefur nú runnið inn í hið nýja íþróttafélag Vestra og mun bera heitið Körfuknattleiksdeild Vestra með hækkandi sól.  Þetta er því í síðasta sinn sem haldið er á Nettómótið undir merkjum KFÍ.

Krakkarnir sem fara á morgun eru á aldrinum 5-10 ára og koma frá flestum byggðakjörnum á norðanverðum Vestfjörðum en þau æfa öll hjá félaginu. Hópurinn skiptist í 10 lið; fimm stelpulið, fjögur strákalið og eitt blandað lið, og eru margir krakkanna að halda á sitt fyrsta stórmót í körfubolta. Mikil eftirvænting ríkir í hópnum en flestir munu gista í skólastofum í Keflavík og taka þátt í þéttskipaðri dagskrá sem teygir sig yfir laugardag og sunnudag. Farið verður í stórri rútu frá Ísafirði um hádegisbil á morgun auk þess sem margir fara á einkabílum með fjölskyldum sínum.

Nettómótið er nú haldið í 26. sinn en það eru barna- og unglingaráð körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur sem standa að mótinu í samvinnu við Nettó og Reykjanesbæ. Umgjörðin er öll hin glæsilegasta og skipulagið hefur ávallt verið til fyrirmyndar. Nú reynir væntanlega á þolrifin því mótið hefur aldrei verið stærra, nær 250 lið eru skráð samanborið við 190 í fyrra. Íþróttafélögin sem senda lið til keppni eru 25 talsins af öllu landinu. Fæstir iðkendur eiga þó lengra að sækja en vesfirsku krakkarnir sem hafa oft lagt á sig langt og strangt ferðalag til að komast til og frá Nettómótinu. Nú virðist veðurspáin vera með skaplegasta móti og er óskandi að hún haldi.

Deila