Fréttir

Fjölmennt dómaranámskeið

Körfubolti | 21.10.2019
Dómararnir Friðrik Árnason, lengst til vinstri og Bjarki Þór Davíðsson, lengst til hægri, ásamt myndarlegum hópi þátttakenda á grunnnámskeiði í dómgæslu, sem fram fór síðastliðinn laugardagsmorgun.
Dómararnir Friðrik Árnason, lengst til vinstri og Bjarki Þór Davíðsson, lengst til hægri, ásamt myndarlegum hópi þátttakenda á grunnnámskeiði í dómgæslu, sem fram fór síðastliðinn laugardagsmorgun.

Ríflega tuttugu manns sóttu grunnnámskeið í dómgæslu í körfuknattleik, sem fram fór á Torfnesi á Ísafirði á laugardaginn var. Námskeiðið er samstarfsverkefni Körfuknattleikssambandsins og Körfuknattleiksdómarafélags Íslands og er miðað við tíundubekkinga og eldri. Tókst námskeiðið í alla staði afar vel og hafa þátttakendur nú lokið fyrsta hluta af þremur í dómaramenntun KKÍ og dómararfélagsins.

Leiðbeinendur á námskeiðinu voru dómararnir Friðrik Árnason og Bjarki Þór Davíðsson. Fyrri hlutinn fór fram í fyrirlestrasal Menntaskólans á Ísafirði en sá seinni var verklegur og var haldinn í íþróttahúsinu á Torfnesi. Námskeiðinu er ætlað að byggja upp grunnþekkingu á leikreglum og dómaratækni í körfuknattleik og veitir þátttakendum réttindi til að dæma á fjölliðamótum hjá börnum á grunnskólaaldri.

Þorri þátttakenda á laugardagsmorgun var á grunn- og framhaldsskólaaldri en nokkrir fullorðnir áhugamenn tóku einnig þátt í námskeiðinu. Allir þátttakendur fengu dómaraflautu að gjöf frá KKÍ og eru nú betur í stakk búnir til að taka að sér dómgæslu á heimaleikjum yngri flokka körfunnar og efla þannig umgjörð mótahalds deildarinnar. Barna- og unglingaráð Kkd. Vestra bauð upp á morgunverð fyrir námskeiðið.

Líkt og kom fram hér í upphafi var mjög góður rómur gerður að námskeiðinu og er það ætlun deildarinnar að bjóða elstu iðkendum upp á sambærilegt námskeið með reglulegu millibili.

Deila