Fréttir

Flaggskipið búið að opna sigurbankann

Körfubolti | 21.10.2018
Flaggskipið vel merkt sínum stærsta styrktaraðila, Ungmennafélagi Bolungarvíkur. Mynd: Guðmundur Kort.
Flaggskipið vel merkt sínum stærsta styrktaraðila, Ungmennafélagi Bolungarvíkur. Mynd: Guðmundur Kort.

Sjálftitlað flaggskip körfuknattleiksdeildarinnar, Vestri-b, mætti Kormáki frá Hvammstanga í 3. deildinni í gær á Jakanum á Ísafirði. Eftir tap á móti Breiðablik í fyrstu umferð þá komust forkólfar liðsins á þá niðurstöðu að þeir hefðu telft fram of mörgum leikmönnum undir þrítugu og í kjörþyngd. Því var snarlega kippt í liðin fyrir leikinn, 75% af þeim ungu skipt út og inn teknir menn sem toguðu ríflega upp meðalaldurinn og meðalþyngdina.

Eins og öllum gömlum díselvélum sæmir þá tók það liðið smá tíma að hitna sóknarlega sem sást berlega á að það skoraði einungis 8 stig í fyrsta leikhluta. Vörnin var þó föst og breið fyrir enda skoruðu gestirnir einnig einungis 8 stig í leikhlutanum.

Í byrjun annars leikhluta kom Einar Valur Gunnarsson, leikstjórnandi Kormáks, gestunum yfir í fyrsta og eina skiptið í leiknum, 8-10. Sú forusta hélst þó ekki lengi því stóri smiðurinn Stefán Þór Hafsteinsson jafnaði strax aftur og Shiran Þórisson kom svo Vestra yfir fyrir fullt og allt stuttu seinna. Reynsluboltarnir Birgir Örn Birgisson og Baldur Ingi Jónasson bættu svo í en þeir skoruðu saman 12 af síðustu 14 stigum Vestra í leikhlutanum en staðan í hálfleik var 27-25.

Baldur var áfram á skotskónum í þriðja leikhluta og byrjaði hann á tveimur ósvöruðum þristum í röð. Flaggskipið hélt áfram að bæta í og var munurinn orðinn 10 stig í lok leikhlutans. Gestirnir áttu fá svör við varnarleik flaggskipsins á þessum kafla og algengara var að sjá þá liggjandi í gólfinu eftir að hafa hlaupið á varnarmann liðsins heldur en að sjá þá leggja boltann ofan í körfuna.

Í fjórða leikhluta var díselvélin komin á fullt flug og enduðu leikar með öruggum 19 stiga sigri flaggskipsins, 65-46.

Þetta var í sjötta sinn sem liðin mætast og hefur Vestri hingað til unnið allar viðureignirnar.

Vestri-b
Baldur Ingi Jónasson - 21 stig, 6 þristar, 3/3 víti
Stígur Berg Sophusson - 10 stig, 4/6 víti, 2 villur
Birgir Örn Birgisson - 8 stig, 2 villur
Shiran Þórisson - 8 stig, 2 þristar, 0/2 víti, 2 villur
Sturla Stígsson - 8 stig, 2/2 víti
Stefán Hafsteinsson - 6 stig
Rúnar Guðmundsson - 2 stig, 3 villur
Alexandar Tazev - 2 stig, 3 villur
Ingólfur Hallgrímsson - 4 villur
Daníel Örn Davíðsson - 1 villa

Kormákur
Sveinn Friðriksson - 10 stig, 1 þristur, 3/6 víti, 2 villur
Elvar Logi Friðriksson - 10 stig, 2/4 víti, 1 villa
Ólafur Már Sigurbjartsson - 5 stig, 3/5 víti, 1 villa
Guðmundur Loftsson - 5 stig, 1/2 víti, 2 villur
Einar Valur Gunnarsson - 5 stig, 1/2 víti, 1 villa
Ragnar Helgason - 5 stig, 1 þristur
Valdimar Gunnlaugsson - 4 stig, 4 villur
Dagur Kárason - 2 stig, 1 villa

Deila