Fréttir

Flaggskipið með úthaldssigur á Grundarfirði

Körfubolti | 25.11.2018
"The Sexy Six" sem stálu sigrinum á Grundarfirði

Sex leikmenn Vestra-b gerðu gott strandhögg á Grundarfirði í gær og stálu þar sigrinum eftir tvíframlengdan leik liðanna í 3. deild karla.

Það byrjaði þó ekki vel fyrir Flaggskipið á upphafsmínútunum enda tefldu heimamenn fram versta óvini B-liðsins: ferskum löppum. En eftir að vera komnir ofan í 0-13 holu og fengið hárþurkumeðferð í leikhléi þar sem mönnum var hótað að þeir fengju að labba heim ef ekki væri hætt að enda allar sóknir snemma á ótímabærum þriggja stiga skotum, þá fór B-liðið í það sem það gerir best. Að dæla boltanum á þungavigtarmennina undir körfunni, þá Jóhann Jakob Friðriksson og Svein Rúnar Júlíusson. Skoruðu þeir næstu 8 stig Vestra og Baldur Ingi Jónasson bætti við þrist undir lokin og lagaði stöðuna í 14-22.

Eftir niðurdrepandi annan leikhluta þar sem hvorugt liðið hefði getað hitt breiðu hliðina á hlöðu, en staðan í hálfleik var 23-31, þá tók stigaskorið kipp í þriðja leikhluta. Þó aðalega Grundarfjarðarmegin en þeir náðu mest 15 stiga mun, 33-48, undir lok hans áður Jóhann Jakob lagaði stöðuna örlítið.

Í stöðunni 40-52 í fjórða leikhluta hrökk flaggskipið í gang með látum eins gömul díselvél og setti 11 stig í röð á heimamenn og skyndilega var munurinn einungis 1 stig, 51-52, þegar 6 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Heimamenn komust þó í vænlega stöðu þegar Kári Gunnarsson kom þeim í 59-55 þegar um mínúta var eftir leiks. Baldur Ingi heldur þó Vestra á lífi þegar hann setur niður 2 af 3 vítum sínum eftir að brotið var á honum í þriggja stiga skoti. Hann var svo aftur á ferðinni skömmu seinna, eftir mislukkaða sókn hjá heimamönnum og setur aftur niður 2 víti þegar fáeinar sekúndur eru eftir og jafnar leikinn 59-59. Grundarfjörður tekur þá leikhlé og fær innkast á miðlínu. Það endar með leikfléttu þar sem Guðni Sumarliðason fær nánast galopið skot undir körfunni en honum bregst bogalistinn, boltinn rúllar af hringnum og framlenging niðurstaðan.

Baldur setur niður fyrstu stig framlengingarinnar af vítalínunni og kemur Vestra yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 59-61. Heimamenn eru þó ekki hættir og þegar innan við fimm sekúndur eru eftir þá leiða þeir með tveimur stigum, 66-64. Þá er aftur brotið á Baldri í þriggja stiga skoti og fær hann því tækifæri til að gera út um leikinn. Hann setur niður fyrstu 2 vítin en það þriðja geigar, að sumra sögn viljandi þar sem hann var loksins kominn í gang og vildi því kría sem flestar mínútur út úr leiknum. Jóhann Jakob nær þó sóknarfrákastinu en nær ekki góðu skoti úr þröngri stöðu áður en klukkan gellur.

Önnur framlenging var því niðurstaðan við blendnar tilfinningar sumra sem voru farnir að sjá fram á að komast ekki fram úr rúminu út næstu vikuna með þessu áframhaldi.

Skipverjarnir á Flaggskipinu höfðu þó engan áhuga á þriðju framlengingunni og gerðu út um leikinn á upphafsmínútum framlengingar númer tvö með því að skora 6 fyrstu stigin. Heimamenn náðu ekki að brúa það bil og 73-70 sigur Vestra staðreynd við gífurleg fagnarlæti leikmanna liðsins.

"Við tókum þá á úthaldinu!"
ónefndur leikmaður Vestra-b þegar honum var rúllað út af vellinum eftir leikinn í hjólbörum.

Jóhann Jakob Friðriksson var ekki bara það eina sem hélt meðalaldri liðsins undir 40 árunum heldur hélt hann Flaggskipinu einnig inn í leiknum framan af. Hann setti persónulegt met í meistaraflokki með 31 stigi sínu en auk þess tók hann fjölda frákasta og varði fjöldan allan af skotum heimamanna. Þess má geta að hann spilaði allar 50 mínúturnar og blés varla úr nös eftir leikinn.

Eftir að hafa byrjað leikinn rólega þá var Baldur Ingi í essinu sínu í fjórða leikhluta og fyrstu framlengingunni en í þeim skoraði hann 17 af 23 stigum sínum. Hann skaut Flaggskipinu inn í báðar framlengingarnar frá vítalínunni en samtals setti hann niður 8 af 10 vítum sínum í leiknum auk þess að jarða niður 5 þristum.

Sveinn Rúnar Júlíusson spilaði sinn fyrsta leik í vetur en þrátt fyrir það var ekki að sjá ryðblett á leik hans. Alls skoraði hann 12 stig, þar af tvær AND1 körfur.

Aleksandar Tasev talaði um það fyrir leikinn að hann vildi helst sleppa við að þurfa að koma upp með boltann og því fékk hann að sjálfsögðu það hlutverk að koma upp með boltann. Hann komst vel frá sínu, lagði upp fjöldan af körfum og skoraði 5 stig.

Sturla Stígsson horfði á kennslumyndband Gunnlaugs Gunnlaugssonar í hvernig á að taka ruðning fyrir leikinn með þeim ágæta árangri að ekki þurfti að skúra völlinn að leik loknum. Hann náði þó að standa nógu lengi í lappirnar til að skora 2 stig á rétt undir 50 mínútum.

Stefán Þór Hafsteinsson talaði mikið um það í ferðinni fyrir leikinn að hann ætlaði að horfa á Rocky IV þegar heim væri komið. Það var því kaldhæðni örlaganna að hann var sleginn í rot rétt fyrir hálfleik. Hann rankaði þó fljótlega við sér og setti síðan kirsuberið á toppinn í góðum leik liðsins í framlengingunni með því að skora síðasta stig Flaggskipsins af vítalínunni á lokasekúndum leiksins.

Deila