Fréttir

Flaggskipið skellti Pance Ilievski og lærisveinum í ÍR

Körfubolti | 17.03.2019

Lið Vestra í leiknum. Mynd: Guðjón Már Þorsteinsson
Lið Vestra í leiknum. Mynd: Guðjón Már Þorsteinsson

Flaggskip Vestra vann sinn annan sigur í röð er það lagði Pance Ilievski og lærisveina hans í ÍR-b í 3. deild karla í dag.

Pance, eins og flestir vita, lék í 10 ár með Vestra/KFÍ og tók auk þess eitt tímabil með Ungmennafélagi Bolungarvíkur. Það voru því miklir fagnaðarfundir fyrir leikinn enda lék hann með flestum leikmönnum Flaggskipsins á einhverjum tímapunkti á síðastliðnum áratug.

ÍR-ingar mættu vel stemmdir til leiks og skoruðu 8 fyrstu stig leiksins. Heimamenn komu þó sterkir til baka og skoruðu 22 af næstu 29 stigum leiksins. Mátti halda að Vestramenn teldu að björninn væri unninn á þessum tímapunkti og eftirleikurinn auðveldur því þeir fóru í algjöra slökun í vörn og sókn næstu mínúturnar. ÍR-ingar gengu hressilega á bragðið því ekki nóg með að þeir skoruðu síðustu 4 stig fyrsta leikhluta þá skoruðu þeir 13 fyrstu stig annars leikhluta, eða 17 ósvöruð stig í röð. Mest náðu ÍR 12 stiga forustu, 22-34, áður en heimamenn komust loksins á blað þegar 5 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.  Náðu þeir að laga muninn talsvert og var staðan 32-37 í hálfleik.

Pance Ilievski leggur sínum mönnum línurnar. Mynd: Guðjón Már Þorsteinsson
Pance Ilievski leggur sínum mönnum línurnar. Mynd: Guðjón Már Þorsteinsson

Annan leikinn í röð þurfti Birgir Örn Birgisson, þjálfari Vestra-b, að beita hárþurrku aðferðinni í hálfleik til að vekja menn sína af væru blundi og annan leikinn í röð virkaði það einstaklega vel því Flaggskipið lokaði algjörlega á skyttur ÍR-inga í seinni hálfleik. Vestramenn kláruðu svo þriðja leikhluta á 13-2 áhlaupi, þar af 10 stig frá Gunnlaugi Gunnlaugssyni, og náðu forustunni aftur.

Í fjórða leikhluta reyndu gestirnir að skjóta sig inn í leikinn frá þriggja stiga línunni en varð lítið ágengt og að lokum uppskar Flaggskipið sanngjarnan 67-58 sigur. 

Vestri-b

Gunnlaugur Gunnlaugsson 21 stig, Guðmundur A. Gunnarsson 18 stig, Helgi Bergsteinsson 14 stig, Jóhann Jakob Friðriksson 5 stig, Rúnar Ingi Guðmundsson 4 stig, Stígur Berg Sophusson 3 stig, Birgir Örn Birgisson 2 stig

ÍR-b

Jón Orri Kristinsson 21 stig, Tómas Aron Viggósson 17 stig, Pance Ilievski 11 stig, Helgi Hrafn Ólafsson 6 stig, Guðmundur Óli Björgvinsson 3 stig

Deila