Fréttir

Flottur útisigur á FSu

Körfubolti | 06.02.2017
Nökkvi Harðarson, fyrirliði Vestra í baráttunni gegn Terrence Motley á Selfossi. Ljósmynd: Jóhannes Eiríksson.
Nökkvi Harðarson, fyrirliði Vestra í baráttunni gegn Terrence Motley á Selfossi. Ljósmynd: Jóhannes Eiríksson.

Vestri sigraði FSu á útivelli í gærkvöldi, 70-80. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur í baráttunni um laust sæti í úrslitakeppninni. Með sigrinum standa lið Vestra og Hamars jöfn að stigum í 5.-6. sæti með 14 stig. Þessi tvö lið mætast svo á Jakanum í næstu umferð, föstudaginn 17. febrúar kl. 19:15. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess leiks því innbyrðis viðureignir Vestra og Hamars geta vegið þungt þegar upp er staðið.

Því miður er tölfræði leiksins á Selfossi ekki aðgengileg ennþá þar sem tölfræðiskráning á meðan á leik stóð fórst fyrir. Öruggar heimildir Vestrasíðunnar herma þó að Vestramenn hafi haft undirtökin megnið af leiknum og haldið 5-7 stiga forystu megnið af leiknum. Sömu heimildir herma einnig að Yima Chia-Kur hafi verið besti maður Vestra en einnig áttu Hinrik Guðbjartsson, Magnús Breki og Pance Iliveski góðan dag og Adam Smári var sterkur í fráköstum en óheppinn í skotum á sínum gamla heimavelli.

Sem fyrr segir er næsti leikur heimaleikur gegn Hamri, þá þurfa strákarnir á öllum stuðningi að halda enda gæti leikurinn ráðið úrslitum um sæti í úrslitakeppninni. Um næstu helgi er frí í deildarkeppninni vegna Bikarhelgi KKÍ. Þar á Vestri glæsilega fulltrúa þar sem 9. flokkur drengja leikur um bikarmeistaratitilinn. Leikurinn fer fram sunnudagsmorguninn kl. 9:45 og verður í beinni útsendingu á vefnum. Við segjum nánar frá Bikarhelginni þegar nær dregur.

Áfram Vestri!

Deila