Fréttir

Frábær árangur hjá kvennaliði KFÍ í vetur

Körfubolti | 23.03.2015
Kvennalið KFÍ hefur staðið sig frábærlega í vetur!
Kvennalið KFÍ hefur staðið sig frábærlega í vetur!

Kvennalið KFÍ hefur staðið sig með stakri prýði í vetur og hafnar liðið í þriðja sæti deildarinnar, hársbreidd frá því að komast í úrslitarimmu um laust sæti í úrvalsdeild. Örlög liðsins réðust í gær þegar það mætti Stjörnunni í leik sem réði úrslitum um hvort liðið myndi mæta deildarmeisturum Njarðvíkur og spila um úrvalsdeildarsætið. Stelpurnar stóðu sig vel í leiknum en urðu því miður að játa sig sigraðar. Lokatölur voru 74-64 Stjörnustúlkum í vil. KFÍ óskar Stjörnunni til hamingju með árangurinn og Njarðvík með deildarmeistaratitilinn.

 

Stjörnustúlkur hófu leikinn betur og leiddu með tíu stigum 23-13 þegar fyrsta leikhluta lauk, þær héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta og leiddu með 14 stigum, 41-27 í hálfleik. Í upphafi þriðja leikhluta komu KFÍ stelpur hinsvegar sterkar inn og jöfnuðu í 43-43 á tuttugustu og fimmtu mínútu. Á þessum tímapunkti létu KFÍ stúlkur kné fylgja kviði og komust mest í 4 stiga forystu 43-47.  Það sem eftir lifði þriðja fjórðungi var leikurinn í járnum en undir blálokinn komst Stjarnarn aftur yfir með þriggja stiga skoti 55-52. Snemma í loka fjórðugnum fékk Labrenthia sína fimmtu villu og lék því ekki meira í leiknum. Stelpurnar gáfust þó ekki upp og lögðu sig allar fram en því miður tókst þeim ekki að jafna leikinn. Lokatölur voru 74-64 Stjörnunni í vil.

 

Þegar rýnt er í tölfræði leiksins sést vel hve jafn hann var en aðeins munaði einu framlagsstigi á liðunum.

 

Þrátt fyrir tap í þessum mikilvæga leik geta stelpurnar verið stoltar af gegni sínu í vetur. Þriðja sæti í deildinni er frábær árangur hjá þessu unga og efnilega liði. Stjórn KFÍ óskar stelpunum til hamingju með árangurinn.

 

Stigaskor KFÍ: Labrenthia 23 sti, 8 fráköst, 7 stoðsendingar, 5 stolnir boltar. Guðrún Edda 14 stig, 8 fráköst, 1 stoðsending, 1 stolinn bolti. Eva Margrét 9 sti, 6 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stolnir boltar. Linda Marín, 9 stig, 3 fráköst, 1 stoðsending, 4 stolnir boltar. Alexandra, 7 stig, 8 fráköst. Saga, 2 stig og 1 frákast.

Deila