Fréttir

Frábær ferð á Nettómótið í Reykjanesbæ

Körfubolti | 03.03.2014
Yngsti hópurinn í stuði enda rosa gaman á Nettómóti.
Yngsti hópurinn í stuði enda rosa gaman á Nettómóti.
1 af 4

Um 35 keppendur á vegum KFÍ mættu á Nettómótið í Reykjanesbæ um helgina. Alls taldi hópurinn yfir 50 manns með keppendum, þjálfurum, fararstjórum og foreldrum. Gist var í Holtaskóla í Keflavík og þétt og skemmtileg dagskrá alla helgina þar sem um 1200 börn kepptu í körfubolta en einnig var boðið upp á bíó, hoppukastala og Vatnaland auk glæsilegrar kvöldvöku á laugardagskvöldinu. KFÍ var með fimm lið í mótinu sem öll stóðu sig mjög vel og var gaman að sjá framfarirnar hjá krökkunum eftir veturinn. Það er líka gaman að segja frá því að þau voru öll til mikillar fyrirmyndar og er félagið afskaplega stolt af þeim.

 

Líkt og í fyrra varð hópurinn af lokahátíð mótsins á sunnudeginum þar sem ákveðið var að flýta brottför vegna tvísýns veðurútlits. Þegar á Hólmavík var komið var ljóst að Steingrímsfjarðarheiði yrði ekki opnuð þann daginn og varð hópurinn að gista á Hólmavík. Það kom þó ekki að sök því gert hafði verið ráð fyrir að slíkt gæti gerst og búið að ganga frá gistingu fyrir hópinn. Krakkarnir gistu í íþróttahúsinu á Hólmavík og það fór mjög vel um þau enda vel útbúin fyrir slíka dvöl. Vill KFÍ nota tækifærið og þakka sérstaklega Hrefnu hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar sem og öllu starfsfólki kaupfélagsins og íþróttahússins fyrir ómetanlega aðstoð og velvilja. 

Deila