Fréttir

Frábær ferð á Sambíómót

Körfubolti | 02.11.2015
Átökin hjá yngstu KFÍ stelpunum voru engu minni en á meistaraflokksleikjum. Helgi Hrafn þjálfari fylgist spenntur með.
Átökin hjá yngstu KFÍ stelpunum voru engu minni en á meistaraflokksleikjum. Helgi Hrafn þjálfari fylgist spenntur með.
1 af 6

Framtíðin er svo sannarlega björt fyrir KFÍ ef marka má frammistöðu okkar fólks á Sambíómótinu sem fram fór um síðustu helgi. Íþróttafélagið Fjölnir í Grafarvogi hefur staðið fyrir þessu mótshaldi um langt árabil en mótið í ár var það stærsta til þessa með nálægt 600 keppendur. Frá KFÍ mættu hátt í þrjátíu vaskir krakkar á aldrinum 6-10 ára í alls fimm liðum, tveimur strákaliðum og þremur stelpuliðum. Engin stig eru formlega talin og allir fara heim með verðlaunapening í farteskinu.

 

Stefanía Ásmundsdóttir stýrði sköruglega tveimur liðum stelpna, annað árgangur 2005 og hitt 2006. Stelpurnar stóðu sig sérlega vel en mættu nokkuð hörðum andstæðingum, einkum í eldri hópnum og þurftu að berjast hart fyrir sínu. Þær yngri fóru með sigur af hólmi í tveimur leikjum þótt engin stig væru talin á mótinu. Margir nýliðar eru í hópnum í bland við stelpur sem hafa æft körfubolta frá því að þær voru í Krílakörfu fimm ára gamlar. Hópurinn hefur tekið stórstígum framförum í haust undir stjórn Stefaníu og á mikið inni.

 

Birgir Örn Birgisson fór fílefldur fyrir strákaliðinu sem keppti í árgangi 2005. Þar er sterkur hópur stráka á ferð og höfðu þeir yfirhöndina í flestum ef ekki öllum leikjum sínum. Þeir hafa flestir æft körfu í u.þ.b. tvö ár og er sannarlega von á góðu með þennan hóp til framtíðar.

 

Helgi Hrafn Ólafsson stýrði yngstu tveimur liðunum, einu strákaliði og einu stelpuliði. Lið KFÍ stelpna í árgangi 2008 var að stíga sín fyrstu skref í móti og var hreint frábært að sjá taktana hjá þeim. Þar fara sterkar stelpur sem munu gera skemmtilega hluti í framtíðinni með góðu utanumhaldi. Greinilegt er að uppeldið í Krílakörfu KFÍ er að skila sér í góðri boltatækni, samhæfingu og spili.

 

Það sama má segja um strákalið KFÍ árgangur 2008. Þar eru ótrúlega flottir strákar á ferð sem flestir hófu körfuboltaferilinn í Krílakörfunni en margir þeirra voru þó að þreyta frumraun sína á móti. Frammistaða þeirra var til mikillar fyrirmyndar.

 

Það má segja um alla keppendur okkar á Sambíómótinuað þeir voru sjálfum sér, foreldrum og félaginu til mikils sóma jafnt innan sem utan vallar. KFÍ foreldrar stóðu sig einnig vel í því að fylgja liðunum eftir en það krefst úthalds og útsjónarsemi að elta ungviðið á jafn viðamiklum mótum og stóru minniboltamótinu eru orðin. Launin eru þó ríkuleg því fátt er skemmtilegra en sjá káta krakka í fjörugum leik undir stjórn afburðaþjálfara sem leiðbeina þeim í hverju skrefi. 

 

Deila