Þá er Körfuboltabúðum Vestra formlega lokið þetta árið og ekki seinna vænna að hefja undirbúning þeirra næstu. Það verða tíundu búðirnar en þær hófu fyrst göngu sína árið 2007. Dagsetning búðanna að ári liggur þegar fyrir og verða þær haldnar dagana 5.-10. júní 2018, að öllu óbreyttu.
Óhætt er að fullyrða að búðirnar í ár hafi heppnast vel. Þátttakendur hafa aldrei verið fleiri en hátt í 160 voru skráðir í stóru búðirnar fyrir 9-16 ára og 25 í Grunnbúðirnar sem ætlaðar eru 1.-3. bekk. Alls voru því hátt í 190 iðkendur viðloðandi búðirnar þetta árið. Þjálfararnir voru samtals 17, bæði aðal- og aðstoðarþjálfarar, en Ingi Þór Steinþórsson, Snæfelli, var yfirþjálfari búðanna að þessu sinni og leysti það af stakri snilld.
Alls tóku krakkarnir samtals 15 æfingar á fimm dögum og voru þau að frá morgni til kvölds með hvildum inn á milli. Yngstu byrjuðu kl. 8 á morgnana og luku æfingum kl. 9 á meðan elstu krakkarnir hófu æfingar kl. 11 og voru að klára undir kl. 22.30 á kvöldin.
Boðið var upp á fyrirlestra á mili æfinga og þrír góðir gestir komu og ræddu við krakkana. Fyrstur var Ísfirðingurinn Sigurður Þorsteinsson, atvinnumaður og landsliðsmaður í körfu, en hann sleit körfuboltabarnaskónum á parketinu á Torfnesi. Síðan kom Logi Gunnarsson, landsliðsmaður, í heimsókn og loks Davíð Tómas Tómasson, dómari í efstu deild, en hans innlegg var hugsað til að sýna krökkunum aðra hlið á körfubolta og varpa ljósi á störf dómaranna.
Eftir glæsilega grillveislu gærkvöldins, undir stjórn Þorsteins Þráinssonar, og úrslitaleiki í þremur aldurshópum voru viðurkenningar búðanna veittar en sá liður er alltaf þrunginn smá spennu. Það er ekki auðvelt hlutskipti þjálfaranna að velja úr hópi 160 einstaklinga, sem allir hafa lagt sig 100% fram í heila fimm daga. Æfingahóparnir voru samtals níu og voru veittar þrjár viðurkenningar í hverjum hópi; duglegasti leikmaðurinn, mestu framfarirnar og leikmaðurinn sem var mest til fyrirmyndar.
Í ár veittu þjálfarar og búðastjórn sérstaka viðurkenningu, "Hetja búðanna", fyrir eftirtektarverðan kraft, dugnað og úthald. Hana hlaut Guðmar Sigvaldason, 12 ára úr Skallagrími, en hann glímir við hreyfihömlun. Alls risu 250 manns úr sætum í íþróttahúsinu á Torfnesi í gærkvöldi honum til heiðurs.
Besta stelpa búðanna og besti strákur búðanna voru svo að endingu valin og þann heiður hlutu Vilborg Jónsdóttir og Veigar Páll Alexandersson, bæði úr Njarðvík.
Deila