Fréttir

Fullt hús stiga hjá Vestra í körfu um helgina

Körfubolti | 25.04.2017
Unglingaflokkur Vestra eftir sigurinn gegn Stjörnunni í Ásgarði ásamt Yngva Páli Gunnlaugssyni, þjálfara.
Unglingaflokkur Vestra eftir sigurinn gegn Stjörnunni í Ásgarði ásamt Yngva Páli Gunnlaugssyni, þjálfara.
1 af 3

Viðburðarrík helgi er nú að baki í körfuboltanum hjá Vestra en leiknir voru níu útileikir á höfuðborgarsvæðinu frá föstudegi til sunnudags; einn unglingaflokksleikur, fjórir leikir í 9. flokki drengja og fjórir leikir í minnibolta eldri stúlkna. Fór svo að allir leikirnir unnust og er því Vestri karfa með fullt hús stiga eftir þessa annasömu helgi. Gaman er að geta þess að allir hóparnir þrír hafa í vetur æft undir stjórn Yngva Páls Gunnlaugssonar, yfirþjálfara Kkd. Vestra.

Unglingaflokkur karla lék sinn síðasta leik á tímabilinu gegn Stjörnunni í Ásgarði á föstudagskvöld og hafði sigur í framlengdum leik, 72-64. Liðið lék í 2. deild í vetur og hafnaði í 5. sæti deildarinnar en það verður að teljast ágætur árangur ef miðað er við að drjúgur hluti liðsmanna er á grunnskólaaldri.

Bikarmeistarar 9. flokks drengja spiluðu síðan fjóra leiki í síðustu umferð Íslandsmótsins í B-riðli, en mótið fór fram hjá ÍR-ingum í Hertz hellinum fræga. Þar mættu þeir heimamönnum ásamt Þór Akureyri, Keflavík og sameiginlegu liði Borgnesinga og Reykdæla. Vestrastrákarnir hafa flakkað á milli A og B riðils í vetur en nú þótti þeim greinilega nóg komið og sigruðu alla sína leiki með verulegum yfirburðum. Þeir eru því komnir upp í A-riðil á ný, ásamt fjórum bestu liðum landsins í þeirra aldurshópi, og hefja keppni þar sem 10. flokkur næsta vetur.

Að lokum voru það svo stelpurnar í minnibolta eldri, 10-11 ára, sem tóku þátt í fimmta og síðasta Íslandsmóti vetrarins í þeirra aldurshópi en mótið fór fram hjá Fjölni í Dalhúsum í Grafarvogi. Þar sem helgin var annasöm hjá Yngva þjálfara hljóp Nökkvi Harðarson í skarðið og uppskar liðið sigur í öllum sínum leikjum en þær léku í C-riðli mótsins. Þær hefja því leik í B-riðli á næstu leiktíð.

Það má með sanni segja að þessi þrjú lið Vestra ljúki leiktímabilinu með glæsibrag. Mótshaldi yngri flokka er þó ekki lokið þar sem tvö lið eiga enn eftir lokamótin sín en það er 8. flokkur stúlkna sem keppir um næstu helgi og lið minnibolta eldri drengja sem keppir á lokamóti vetrarins fyrstu helgina í maí.

Deila