Fréttir

Fyrsti heimaleikur Vestra á sunnudag

Körfubolti | 07.10.2016
Nýr keppnisbúningur Vestra verður frumsýndur á heimavelli á sunnudaginn kemur.
Nýr keppnisbúningur Vestra verður frumsýndur á heimavelli á sunnudaginn kemur.

Sunnudaginn 9. október er komið að frysta heimaleik Vestra í 1. deild karla í körfubolta. Það eru Fjölnismenn sem eru fyrstir til þess að mæta á Jakann en þeim er einmitt spáð sigri í deildinni í vetur.

Vestri lék sinn fyrsta leik í gærkvöldi gegn Breiðabilki á útivelli en sá leikur tapaðist. Þrátt fyrir tapið geta strákarnir tekið ýmislegt jákvætt út úr leiknum sem má byggja ofan á á sunnudag. Nebojsa átti frábæran leik gegn Blikum, skoraði 31 stig, tók 16 fráköst. Hinrik var einnig drjúgur og skoraði 17 stig.

Leikurinn á sunnudag gegn Fjölni hefst kl. 19:15. Aðgangseyrir er óbreyttur frá síðasta ári eða 1.000 kr. en á leiknum verða einnig til sölu árskort fyrir aðeins 10.000 kr. en kortin gilda á alla 12 heimaleiki Vestra í Íslandsmótinu.

Sú góða hefð að bjóða upp á hamborgara á leiknum verður að sjálfsögðu höfð í heiðri svo algjör óþarfi er að standa í kvöldmatarstússi heima fyrir leik.

Þá er rétt að taka fram að nýir og glæsilegir keppnisbúningar frá Henson verða frumsýndir á heimavelli í leiknum.

Við minnum einnig á að unglingaflokkur Vestra fær Skallagrím í heimsókn á laugardag og 8. flokkur stúlkna spilar á fyrsta fjölliðamóti vetrarins í Bolungarvík á laugardag og sunnudag.

Áfram Vestri!

Deila