Það má segja að skipst hafi á skini og skúrum á þingi KKÍ sem lauk fyrr í dag. Góðu fréttirnar eru þær að Gaui.Þ (Guðjón M. Þorsteinsson) er kominn í aðalstjórn KKÍ og erum við ákaflega ánæsð með það. En það sem olli miklum vonbrigðum er að þingið breytti enn og aftur reglum um fjölda erlenda leikmanna, en stutt er síðan svokölluð 3+2 regla var sett á og hefur deildin heldur betur verið spennandi sem sést best á stöðu liða fyrir lokaumferðina sem er á morgun.
Afar naumt var í kosningu um þetta mál og munaði tveim atkvæðum þegar kosningu lauk og var niðurstaðan sú að tillaga Njarðvíkur og Fjölnis um að hafa ávallt fjóra leikmenn með íslenskt ríkisfang inn á vellinum í einu samþykkt. Þetta er mjög slæmt fyrir landsbyggðarliðin, en fínt mál fyrir stærri klúbbanna sem hafa úr miklu að moða og stutt í næstu hverfi. Það er afar einkennilegt að ekki hafi verið reynt að halda í 3+2 regluna örlítið lengur, en eins og greint var frá hér fyrr í fréttinni er spennan nánast óþolandi fyrir lokaleiki Dominos deildarinnar sem er annað kvöld. Menn héldu fram að það væru færri áhorfendur á leikjum almennt og það væri vegna þess að ekki væru fleiri íslenskir leikmenn að spila og eins að það þyrfti að gefa íslenskum leikmönnum meiri spilatíma. Það er auðvitað stefna allra að gera svo, en landsbyggðin er því miður oftar en ekki í uppeldishlutverki fyrir liðin fyrir sunnan og eru ófáir landsliðsmennirnir sem hafa komið frá landsbyggðinni til liðanna fyrir sunnan og orðið meistarar þar, en færri eru þeir sem koma til liða út á landi og þess vegna hafa liðin notað sér að geta fengið leikmenn utan landsteinanna til að styrkja lið sín.
Þingmenn að vestan og reyndar af allri landsbyggðinni eru mest svekktir yfir því að vera að hringla með þessar reglur ár eftir ár og verður þetta klárlega til þess að veikja stöðu liða sem missa alltaf unga leikmenn frá sér til náms eða vinnu fyrir sunnan.
Það verður forvitnilegt að fylgjast með framvindu mála næstu mánuði.
Meira frá KKÍ þinginu og tillögunum sem samþykktar voru er að finna á KKÍ.is
Deila