Fréttir

Glæsilegur sigur á Fjölni

Körfubolti | 15.12.2014
Stelpurnar náðu þriðja sætinu í deildinni eftir sigur á Fjölni á sunnudaginn.
Stelpurnar náðu þriðja sætinu í deildinni eftir sigur á Fjölni á sunnudaginn.

Kvennalið KFÍ hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og gerði sér lítið fyrir í gær, sunnudaginn 14. desember, og sigraði lið Fjölnis hér heima. Leiknum lauk með 10 stiga sigri 58-48 fyrir KFÍ. Þar með hafa stelpurnar sigrað þrjá leiki í röð og fara inn í jólafrí í þriðja sæti deildarinnar með þrjá sigra og þrjú töp.

 

Leikurinn fór nokkuð brösulega af stað en KFÍ braut ísinn á þriðju mínútu þegar Eva Margrét setti niður tvö víti. Gestirnir í Fjölni jöfnuðu svo skömmu síðar en Eva Margrét fór aftur á vítalínuna og kom KFÍ yfir á ný. Eftir það var ekki aftur snúið og hélt KFÍ forystu út allan leikinn. Undir lok fyrsta leikhluta og í byrjun annars náðu KFÍ stelpur góðum kafla og leiddu með 8-14 stigum út leikinn.

 

Allir leikmenn KFÍ lögðu sitt af mörkum líkt og í síðasta leik gegn FSu. Labrenthia Murdock Pearson daðraði við tvöfalda þrennu, var með 19 stig, 9 fráköst og 9 stolna bolta auk 7 stoðsendinga. Eva Margrét átti einnig góðan leik líkt og svo oft í vetur með 17 stig, 8 fráköst 2 stolna bolta. Alexandra Sif Herleifsdóttir var öflug inn í teygnum, skoraði 7 stig, tók 13 fráköst og 2 stolna bolta. Linda Marín skoraði 7 stig og tók 7 fráköst, Saga skoraði 6 stig og tók 4 fráköst, Hekla skoraði 2 stig og tók 2 fráköstog Rósa gaf 2 stoðsendingar og stal 4 boltum.

 

Hjá Fjölni var Erla Sif Kristinsdóttir stigahæst með 16 stig, 8 fráköst og 3 stolna bolta. Gréta María Grétarsdóttir var með 11 stig og 16 fráköst. Sigrún Anna Ragnarsdóttir var með 8 stigog 6 fráköst, aðrir leikmenn með minna.

 

Sjá nánar ítarlega tölfræði á vef KKÍ.

Deila