Fréttir

Glæsilegur sigur stelpnanna í Njarðvík!

Körfubolti | 21.03.2015
Stelpurnar hafa verið á mikilli siglingu í vetur og eiga nú möguleika á að leik til úrslita um sæti í úrvalsdeildinni. Mynd: Fjölnir Baldursson.
Stelpurnar hafa verið á mikilli siglingu í vetur og eiga nú möguleika á að leik til úrslita um sæti í úrvalsdeildinni. Mynd: Fjölnir Baldursson.

Kvennalið KFÍ gerði sér lítið fyrir í gærkvöldi og lagði að velli deildarmeistara Njarðvíkinga 71-59. Með sigrinum hefur KFÍ góða möguleika á að mæta Njarðvík í úrslitarimmu um laust sæti í úrvalsdeild. Sigurinn í Njarðvík í gær var sannkallaður liðssigur þar sem allir leikmenn lögðu sitt af mörkum. Labrenthia dró vagninn en einnig voru þær Eva Margrét og Alexandra drjúgar.

 

Sigurinn var sérlega sætur fyrir margar saki. Í fyrsta lagi var ljóst fyrir leikinn í gær að Njarðvíkur stúlkur hefðu unnið deildina. Í öðru lagi létti sigurinn ákveðinni pressu af KFÍ stelpum fyrir leikinn gegn Stjörnunni á morgun, sunnudag, sem verður hreinn úrslitaleikur um annað sætið í deildinni. Ef sigur hefði ekki unnist gegn Njarðvík hefðu KFÍ stelpur þurft að sigra Stjörnuna með 11 stiga mun, þar sem innbyrðis viðureignir liðana hefðu ráðið úrslitum. Nú dugar KFÍ hinsvegar einfaldlega að sigra leikinn með hvaða mun sem er. Í þriðja lagi hefði þessi leikur átt að fara fram á Ísafirði enda um frestaðan leik að ræða sem KFÍ ákvað að gefa eftir til Njarðvíkur til að spara ferðakostnað löngu áður en ljóst var hve mikilvægur leikurinn væri. Að lokum má svo segja að það sé afar gott veganesti fyrir stelpurnar að vita að þær geti unnið topplið deildarinnar á útivelli ef til þess kemur að þær sigri Stjörnuna og leiki til úrslita.

 

Eins og áður segir er leikurinn á morgun við Stjörnuna hreinn úrslitaleikur um að leika til úrslita gegn Njarðvík, jafnvel þótt Stjarnan eigi leik til góða gegn Tindastóli í lok mánaðarins. Við hvetjum því alla Ísfirðinga og Vestfirðinga á höfuðborgarsvæðinu til að mæta í Ásgarð í Garðarbæ  kl. 14:30 á morgun og styðja við bakið á stelpunum sem eiga raunhæfan möguleika á að leika um laust sæti í úrvalsdeild við deildarmeistara Njarðvíkur.

 

Því miður virðist tölfræðiþáttum leiksins við Njarðvík ekki hafa verið haldið til haga og því getum við ekki birt upplýsingar um stigaskor og aðra tölfræði upplýsingar að svo stöddu. Þessi frétt verður uppfærð um leið og einhverjar tölfræðiupplýsingar berast.

 

Áfram KFÍ!

Deila