Fréttir

Góð frammistaða hjá 9. flokki stúlkna

Körfubolti | 21.11.2016
Glaðbeittar stelpur eftir góðan sigur á KR á sunnudag.
Glaðbeittar stelpur eftir góðan sigur á KR á sunnudag.

Stelpurnar í 9. flokki voru gestgjafar á fjölliðamóti sem fram fór í Íþróttahúsinu í Bolungarvík um helgina. Mótið var í B-riðli í annari umferð Íslandsmótsins en stelpurnar unnu sig upp úr C-riðli í síðustu umferð. Á mótinu um helgina stóðu þær sig með stakri prýði, unnu tvo leiki af fjórum og héldu sæti sínu í riðlinum.

Auk Vestra kepptu á mótinu Breiðablik og KR en þar sem aðeins þrjú lið eru í riðlinum er leikin tvöföld umferð. Vestra stúlkur mættu KR í fyrsta leik á laugardaginn og unnu sannfærandi fimmtán stiga sigur 46-31. Seinni leikur laugardagsins var svo gegn sterku liði Breiðabliks sem féll úr A-riðli í síðustu umferð. Þetta var hörku leikur og Vestra stelpur voru inn í leknum allan tímann þótt Blikar hafi haft yfirhöndina og að lokum 10 stiga sigur 47-57. Á sunnudagsmorgun var seinni umferðin leikin og mættu Vestra stelpur KR aftur í fyrsta leik. Stelpurnar gáfu ekkert eftir og unnu KR aftur sannfærandi sigur á KR 45-24. Þegar kom að lokaleiknum gegn Breiðabliki sýndu Blikastúlkur mátt sinn og unnu sannfærandi sigur 26-46 og færast því verðskuldað aftur upp í A-riðil.

Eins og fyrr segir stóðu stelpurnar í Vestra sig frábærlega á mótinu. Allar sem ein lögðu þær sig fram, börðust af krafti inn á vellinum og voru glaðar og kátar utan vallar. Þessi hópur hefur tekið stórstígum framförum á skömmum tíma undir leiðsögn Nökkva Harðarsonar þjálfara og Adams Smára aðstoðarþjálfara. Flottur hópur sem á sannarlega framtíðina fyrir sér í körfunni.

Áfram Vestri!

Deila