Fréttir

Góð helgi hjá minnibolta stúlkna

Körfubolti | 14.10.2014
Hópurinn ásamt Evu þjálfara.
Hópurinn ásamt Evu þjálfara.
1 af 2

Um nýliðna helgi, 10.-11. október, fór fram fyrsta fjölliðamót Íslandsmótsins í minnibolta stúlkna hér á Ísafirði. KFÍ stelpur tóku á móti Ármanni og Breiðablik og voru leiknar tvær umferðir.

 

KFÍ stelpurnar stóðu sig frábærlega í þessum fyrstu leikjum sínum á Íslandsmótinu og sýndu og sönnuðu að þær eiga framtíðna fyrir sér. Mótið tókst í alla staði vel og voru gestirnir ánægðir með umgjörðina sem Barna- og unglingaráð KFÍ á heiðurinn að.

 

Á laugardaginn mættu stelpurnar okkar ákveðnar til leiks og unnu fyrsta leikinn gegn Breiðablik en töpuðu gegn Ármanni í öðrum leik þegar þegar þreytan var farin að segja til sín. Engu að síður var þetta góður árangur í fyrstu umferð og stelpurnar voru staðráðnar í að gera betur daginn eftir. Á sunnudaginn héldu stelpurnar uppteknum hætti og unnu sannfærandi sigur á Breiðablik en töpuðu naumlega gegn Ármanni í baráttuleik um sæti í B-riðli.

 

Niðurstaðan var því sú að sterkt lið Ármanns fer upp í B-riðil en okkar stelpur mega vel við una því þær sýndu heldur betur hvað í þeim býr. Ekki síst var aðdáunarvert að sjá hve góða liðsheild þjálfararnir hafa náð að skapa því stelpurnar börðust hver fyrir aðra og spiluðu vel saman.

 

Næsta fjölliðamót hjá stelpunum fer fram helgina 8.-9. nóvember og verður gaman að fylgjast með hvernig þær byggja ofan á þessa reynslu.

 

Hér að neðan er umfjöllun um hvern leik fyrir sig og upplýsingar um stigaskor.

 

KFÍ-Breiðablik 46-25

Það var ekki að sjá að stelpurnar væru að spila sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu enda stóðu þær sig allar mjög vel. Þær byrjuðu strax af krafti og skipti engu máli hver þeirra var inn á því þær skiluð allar sínu. Góður varnarleikur skilaði fjölda hraðaupphlaupa sem stelpurnar nýttu vel.

 
Stig KFÍ: Rakel 18, Katla 16, Helena 4, Dagbjört 2, Hrafnhildur Guðný 2, Júlíana 2, Snæfríður 2.

 

KFÍ-Ármann 15-30

 

Annar leikurinn fór fram strax eftir þann fyrsta. Stelpurnar stóðu sig vel en þreytan var farin að segja til sín um miðjan leik sem gerði þeim erfitt fyrir gegn mjög sterku liði Ármanns sem spilaði hörku varnarleik sem skóp þeirra sigur.

 

Stig KFÍ: Helena 6, Rakel 5, Snæfríður 2, Katla 2.

 

Flottur dagur hjá KFÍ stelpunum sem voru þó ákveðnar í að gera betur daginn eftir!

 

KFÍ-Breiðablik 48-24

 

Stelpurnar mættu tilbúnar í annan leik sinn gegn Breiðabliki. Hrafnhildur Una, sem ekki lék í fyrri umferðinni ákvað að taka slaginn þrátt fyrir að vera meidd á fingri. Stelpurna spiluðu mjög vel og var staðan eftir fyrsta leikhluta var 16-3. Allar stelpurnar spiluðu frábæra vörn auk þess að vera grimmar í sóknarfráköstum sem skilaði auðveldum körfum inni í teignum.

Stig KFÍ: Helena 12, Hrafnhildur Una 12, Rakel 8, Sara Emily 4, Snæfríður 4, Sædís 4, Júlíana 2, Dagbjört 2.

 

KFÍ-Ármann 22-26

 

Stelpurnar í Ármanni byrjuðu leikinn með mjög sterkum varnarleik sem okkar stelpur fundu engin svör við og var staðan í lok hans 0-6. Í öðrum leikhluta tókst KFÍ stelpum að snúa leiknum algjörlega við og unnu leikhlutann 12-0 og því var staðan 12-6 í hálfleik. Í þriðja leikhluta náði Ármann aftur að stilla saman vörnina og spiluðu harða vörn sem gerði það að verkum að okkar stelpum gekk illa að koma boltanum á milli sín og neyddust þær því til að taka erfið skot. Fjórði og síðasti leikhlutinn einkendist af mikilli baráttu hjá báðum liðum. Okkar stelpur spiluðu frábæra vörn og náðum að minnka munin aftur niður 4 stig en komust því miður ekki lengra og leikurinnn fór 22-26 fyrir Ármanni. Engu að síður var þetta frábær leikur hjá stelpunum okkar gegn mjög sterku liði og gefur góð fyrirheit um framhaldið.

 

Stig KFÍ: Rakel 12, Helena 2, Hrafnhildur Una 2, Snæfríður 2, Sædís 2.

 

Deila