Fréttir

Góðir útisigrar um helgina

Körfubolti | 09.03.2015
Labrenthia Murdock á mikilli siglingu í leik KFÍ og Fjölins á sunnudaginn. Ljósmynd: Karfan.is.
Labrenthia Murdock á mikilli siglingu í leik KFÍ og Fjölins á sunnudaginn. Ljósmynd: Karfan.is.

Árangur meistaraflokksliða KFÍ um nýliðna helgi var býsna góður. Kvennaliðið lék tvo leiki og sigraði þá báða afar sannfærandi. Fyrri leikurinn var gegn FSu/Hrunamönnum en sá síðari gegn Fjölni. Með sigrum helgarinnar tryggðu stelpurnar sér annað sæti deildarinnar en hafa leikið einum leik meira en Stjarnan sem situr í þriðja sæti. Karlaliðið lék einnig tvo leiki, tapaði fyrri leiknum gegn Breiðabliki en sigraði ÍA á Skaganum með einu stigi 71-70.

 

Í þessari útileikj törn hófu strákarnir leik á föstudagskvöldið gegn Breiðabliki. Strákarnir lentu fljótlega undir í leiknum og þurftu að elta heimamenn allan leikinn og því fór sem fór og leikurinn tapaðist með 100 stigum Breiðabliks gegn 75 stigum KFÍ. Stigahæstu leikmenn KFÍ voru Nebojsa með 32 stig, Birgir Björn með 16 og Pance með 11. Ítarlegri tölfræði á vef KKÍ.

 

Á laugardaginn mætti kvennalið KFÍ liði FSu/Hrunamanna á Selfossi. Stelpurnar léku afar vel og sigruðu sannfærandi með 81 stigi gegn 40. Því miður virðist tölfræði leiksins ekki aðgengileg á vef KKÍ en stigaskorið var á þann veg að Labrenthia skoraði 25, Eva 23, Guðrún Edda 10, Alexandra 9, Linda 7, Hlín 5 og Rósa 2.

 

Á sunnudaginn mættu stelpurnar svo Fjölni og héldu uppteknum hætti og sigruðu með 76 stigum gegn 59. Leikurinn var jafn og spennandi fram undir annan leikhluta en þá gáfu KFÍ stelpur í og juku smátt og smátt við forskot sitt. Stigin skiptust þannig að Labrenthia skoraði 21 stig og tók 17 fráköst, Eva skoraði 16 stig og tók 8 fráköst, Linda skoraði 13 stig og tók 7 fráköst, Hlín skoraði 10 stig, Guðrún Edda 7 stig og tók 6 fráköst, Alexandra skoraði 6 stig og Rósa 3 stig. Ítarleg tölfræði aðgengileg á vef KKÍ.

 

Síðdegis á sunnudag mættu strákarnir svo ÍA á Akranesi. Okkar menn höfðu svo sannarlega harma að hefna gegn ÍA. Fyrir leikinn höfðu liðin mæst tvisvar og höfðu báðir leikirnir tapast með einu stigi, fyrst hér heima í haust og síðan á Skaganum fyrir mánuði. Nú snerist taflið loksins við og okkar menn sigruðu með einu stigi 70-71. Nebojsa átti stórleik og var aðeins einni stoðsendingu frá því að vera með þrennu. Hann skoraði 21 stig tók 10 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Pance átti einnig góðan leik en hann skoraði 19 stig og tók 5 fráköst. Gunnlaugur Gunnlaugsson átti mjög góða innkomu og skoraði 15 stig, Birgir Björn skoraði 8 stig og tók 12 fráköst, Jóhann Kakob skoraði 6 stig og Andir Már 2. Ítarlega tölfræði má nálgast á vef KKÍ.

Deila