Fréttir

Góður dagur að kveldi kominn

Körfubolti | 18.09.2010
Þetta skal hafast
Þetta skal hafast
Þá er laugardagur brátt á enda, og mikið gert í dag. KRingar gerðust svo góðir að útvega okkur æfingu í dag og var tekið á því í dágóðan tíma. Síðan horfðum við á skemmtilegan leik í Lengjubikar kvenna á milli KR og Fjölnis. Það var mjög gaman. Eftir púlið og áhorfið var haldið á Ask, Suðurlandsbraut og þar beið okkar pastahlaðborð, súpa og grænmeti sem rann ljúft niður. Þá var farið "heim" í Kópavog og menn slökuðu á við skák, tölvuleiki og almennt rabb. Og núna í þessum töluðu orðum eru allir nema tveir í kvikmyndahús að horfa á "The other guys" (ameríska útgáfan af Ara og Daða) og hélt sá sem þetta skrifar að þeir í hollívúdd hefðu skrifað söguna eftir að hafa umgengist þá drengi í svo sem eina viku.

En þeir tveir sem ekki fóru á bíó vita að það þarf að sinna náminu af krafti og þeir  Sigmundur R. Helgason og Gautur Arnar Guðjónsson sitja yfir námsbókum og sýna og sanna að til þess að fitta inn í kerfið þurfa þeir að sýna ábyrgð og vinna heimavinnuna. Fararastjórinn situr yfir þeim og fylgist með að allt fari vel fram.

Síðan munu allir klára kvöldið með yfirferð leikkerfa og horfa á síðasta leik gegn Stjörnunni áður en farið er í bólið um 23.30. Morguninn er tekinn snemma með æfingu hjá KR, sem enn og aftur sýna okkur mikinn velvilja.  Svo er bara slökun fram að leik, sem hefst 19.15 í DHL-höllinni glæsilegu. Við vonum að sjá sem flesta þar. 

Kveðjur heim.
"strákarnir" Deila