Fréttir

Góður sigur KFÍ kvenna gegn Þór

Körfubolti | 22.02.2015
Labrenthia Murdock spilandi þjálfari KFÍ átti stórleik í gær með 30 stig! Ljómsynd: Fjölnir Baldursson.
Labrenthia Murdock spilandi þjálfari KFÍ átti stórleik í gær með 30 stig! Ljómsynd: Fjölnir Baldursson.
1 af 2

Í gær, laugardaginn 21. febrúar, tók meistaraflokkur kvenna hjá KFÍ á móti Þór Akureyri í leik í 1. Deild kvenna. Leiknum lauk með stórsigri KFÍ 85-48.


Það var á brattann að sækja hjá gestunum í Þór frá upphafi enda gátu aðeins fimm leikmenn liðsins mætt til leiks. Það vantaði því nokkra lykilleikmenn liðsins á meðan KFÍ gat telft fram sínu sterkasta liði utan þess að hin nýbakaða unglingalandsliðsstúlka Saga Ólafsdóttir var fjarri góðu gamni.


Hér má sjá skemmtilega myndbandssamantekt frá leiknum sem Fjölnir Baldursson kvikmyndagerðarmaður á Ísafirði setti saman.


KFÍ hóf leik með miklum látum og komust í 11-0 á fimmtu mínútu. Þótt Þórs stúlkur næðu að komast inn í leikinn upp úr því hélt KFÍ þessum 11 stiga mun út leikhlutann og lauk honum með tölunum 22-11. Í öðrum fjórðungi braggaðist leikur gestanna nokkuð með betra flæði í sóknarleiknum en varnarleikurinn batnaði lítið sem má teljast eðlilegt þegar aðeins fimm leikmenn eru til taks og allir verða að passa sig á villufjölda. Frjórðungnum lauk með sex stiga „sigri“ KFÍ og staðan í hálfleik var því 47-30. Segja má að KFÍ hafi svo endanlega gert út um leikinn með góðum spretti í þriðja leikhluta þar sem KFÍ skoraði 19 stig gegn engu frá gestunum. Að loknum þessum spretti var staðan því 74-38 og norðanstúlkur hættar að sjá til sólar. Í fjórða leikhluta gat Labrenthia þjálfar hvílt sig og Evu Margréti löngum stundum og gefið öðrum leikmönnum tækifæri til að halda utan um verkefnið. Leiknum lauk því sem fyrr segir með góðum sigri heimastúlkna 85-48.


Í liði KFÍ lögðu allir leikmenn sitt lóð á vogarskálarnar. Labrenthia var atkvæðamest með 30 stig, 12 fráköst, 3 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Eva Margrét átti einnig skínandi leik með 23 stig, 14 fráköst, 5 stoðsendingar 3 stolna bolta. Linda Marín átti góðar innkomur, setti 10 stig og tók 8 fráköst. Alexandra skoraði 8 stig og tók 2 fráköst. Guðrún Edda skoraði 6 stig, öll úr hraðaupphlaupum, og var einnig drjúg í fráköstum með 6 fráköst og gaf 2 stoðsendingar og stal 1 bolta. Rósa skoraði 3 stig, tók 1 frákast og gaf 1 stoðsendingu en Rósa var einnig drjúg í vörninni og fór vel með boltann í sókninni og gerði fá mistök. Hekla skoraði 2 stig og tók 2 fráköst.


Í liði gestanna var Unnur Lára Ásgeirsdóttir atkvæðamest með 21 stig og 14 fráköst. Heiða Hlín Bjjörnsdóttir var með 9 stig, 5 fráköst, 1 stoðsendingu og 1 stolinn bolta. Una Magnea Stefánsdóttir var með 8 stig og 6 fráköst. Árdís Eva Skaftadóttir var með 5 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar og Sædís Gunnarsdóttir var með 5 stig, 2 fráköst og 3 stoðsendingar.

Næsti leikur meistaraflokks kvenna KFÍ er útileikur gefn FSu/Hrunamönnum sem fram fer þann 7. mars fyrir sunnan.  

Deila