Fréttir

Góður sigur gegn ÍA

Körfubolti | 23.10.2016
Baráttujaxlinn Nökkvi Harðarson fékk slæmt olnbogaskot í leiknum í kvöld. Hér er hann í baráttunni gegn ÍA í fyrra.
Baráttujaxlinn Nökkvi Harðarson fékk slæmt olnbogaskot í leiknum í kvöld. Hér er hann í baráttunni gegn ÍA í fyrra.

Vestramenn mættu ÍA á Skaganum í kvöld og höfðu góðan sigur 77-82. Leikurinn var jafn, spennandi og hart barist eins og tilfellið var jafnan þegar Vestri lék undir merkjum KFÍ. Leikurinn var sögulegur því þetta er fyrsti sigurinn á Íslandsmóti undir merkjum Vestra.

Skagamenn fóru betur af stað og skoruðu 4 fyrstu stig leiksins en upp úr því bitu Vestramenn frá sér og komust yfir 4-6. Þá hrukku Skagamenn hinsvegar aftur í gang og skoruðu 13 stig gegn engu og skyndileg leiddu þeir með 11 stigum. Undir lok leikhlutans fékk Nökkvi Harðarson svo slæmt olnbogaskot í andlitið frá Fannari Frey Helgasyni. Gera þurfti hlé á leiknum af þessum sökum og fór Nökkvi á Fjórðungssjúkrahúsið á Akranesi til aðhlynningar. Vonandi eru áverkarnir ekki alvarlegir því nægar hafa blóðtökurnar verið úr liðinu það sem af er leiktímabilinu.

Skagamenn héldu áfram að vera skref á undan út fyrri hálfleik og leiddu með 11 stigum 44-33 þegar flautað var til leikhlés. Vestramenn mættu svo gríðarlega ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og ljóst að þeir ætluðu ekkert að gefa eftir þrátt fyrir að missa fyrirliðan úr leiknum. Liðið sýndi mikla baráttu og vann sig smátt og smátt inn í leikinn. Um miðbik fjórðungsins jafnaði Daníel Þór Midgley leikinn 46-46 með góðri þriggja stiga körfu úr horninu og aftur var jafnt 48-48 eftir góða körfu Nebojsa Knezevic. Skagamenn höfðu þó enn forystu þegar leikhlutanum lauk 61-55. Í fjórða leikhluta var svo einfaldlega eins og Vestramenn ættu meira inni á meðan allur þróttur var úr Skagamönnum. Vestri komst yfir 64-66 með góðri þriggja stiga körfu frá Nebojsa.  Uppúr því náðu strákarnir tangarhaldi á leiknum og ljóst að þeir ætluðu ekki að gefa stigin eftir. Það var sérstakleg ánægulegt að sjá hve baráttuglaðir Vestramenn voru og ekki síst hve skynsamir þeir voru í flestum aðgerðum á þessum tímapunkti. Hinrik var öruggur á boltanum og flestar ákvarðanir sem liðið tók voru réttar. Þegar tvær og hálf mínúta voru eftir fór Nebojsa útaf með sína fimmtu villu en strákarnir leystu vel úr því og kláruðu leikinn af krafti. Lokatölur 77-82.

Þetta var sterkur sigur gegn fullmönnuðu liði ÍA. Barátta og fórnfýsi einkenndi Vestra, sem veit á gott fyrir næstu helgi þegar strákarnir mæta Hetti frá Egilsstöðum í tveimur leikjum.

Nebojsa var besti maður vallarins og nældi sér í enn eina tvennuna, 33 stig, 13 fráköst auk 5 stoðsendinga og 1 stolinn bolti. Hinrik átti einnig mjög góðan leik, stýrði liðinu vel og var yfirvegaður og öruggur á boltanum undir lok leiksins þegar mest reyndi á. Hann skoraði 20 stig, tók 2 fráköst, gaf 2 stoðsendingar og stal 2 boltum. Gunnlaugur skoraði 9 stig og tók 8 fráköst. Adam Smári skoraði 8 stig og tók 2 fráköst. Daníel skoraði 5 stig, tók 4 fráköst, 2 stoðsendingar og með 1 stolinn bolta.  Björgvin skoraði 4 stig og tók 3 fráköst.

Ítarlega tölfræði má nálgast hér.

Deila