Fréttir

Gunnlaugur og Jóhann Jakob framlengja

Körfubolti | 13.06.2017
Leikmennirnir fjórir sem skrifuðu undir samning í gær. Frá vinstri: Jóhann Jakob Friðriksson, Þorleifur Hallbjörn Ingólfsson, Rúnar Ingi Guðmundsson og Gunnlaugur Gunnlaugsson.
Leikmennirnir fjórir sem skrifuðu undir samning í gær. Frá vinstri: Jóhann Jakob Friðriksson, Þorleifur Hallbjörn Ingólfsson, Rúnar Ingi Guðmundsson og Gunnlaugur Gunnlaugsson.

Undanfarna daga hafa penni og samningsblöð verið á lofti hjá körfuknattleiksdeild Vestra. Í gær skrifuðu fjórir leikmenn undir samninga og því má segja að ákveðinn kjarni leikmanna sé tryggður fyrir komandi tímabil. Því fer þó fjarri að penninn og prenatrinn séu komnir í frí.

Framherjinn Gunnlaugur Gunnlaugsson og miðherjinn Jóhann Jakob Friðriksson framlengdu sína samninga ásamt bakverðinum unga Rúnari Inga Guðmundssyni. Auk þerra skrifaði Þorleifur Hallbjörn Ingólfsson undir sinn fyrsta leikmannasamning en hann kemur beint upp úr yngri flokkum Vestra. Allir eru þessir piltar það sameiginlegt að vera uppaldir í KFÍ og Vestra og slitu því körfuboltabarnsskónum á parketi Jakans.

Gunnlaugur hefur verið lykilmaður í liði KFÍ og Vestra undanfarin ár eftir að hann gekk til liðs við KFÍ á nýjan leik í janúar 2015. Hann er uppalinn innan okkar raða og steig sín fyrstu skref með félaginu í yngri flokkum og lék með meistaraflokki á árunum 2005-2009 áður en hann söðlaði um og lék með UMFB í 2. deild. Meðfram spilamennsku með liðinu hefur Gunnlaugur einnig sinnt þjálfun yngri flokka með góðum árangri.

Jóhann Jakob 202 sentímetra miðherji , uppalinn í KFÍ og Vestra en lék fyrri hluta síðasta tímabils með Ármanni í 1. deild áður en hann sneri heim á ný  um síðustu áramót. Hann hóf meistaraflokksferil sinn með KFÍ í úrvalsdeildinni haustið 2013 og hefur samtals leikið 76 leiki með KFÍ og Vestra í 1. deild og úrvalsdeild.

Rúnar Ingi Guðmundsson er ungur og efnilegur leikmaður fæddur árið 1999. Hann kemur upp úr yngri flokkum KFÍ og Vestra og steig sín fyrstu skref með meistaraflokki tímabilið 2015-2016 aðeins 16 ára gamall.. Hann lék með unglingaflokki Vestra á síðasta tímabili og kom við sögu í 12 leikjum meistaraflokks. Rúnar er góður liðsfélagi sem leggur hart að sér í æfingum og mun án efa láta að sér kveða í framtíðinni.

Þorleifur Hallbjörg Ingólfsson lék með 10. flokki og unglingaflokki Vestra á síðasta tímabili. Hann er fæddur árið 2001 og kom inn á í sínum fyrsta meistaraflokksleik á síðasta tímabili. Þorleifur á ekki langt að sækja körfuboltaáhugann því hann er sonur Ingólfs Þorleifssonar formanns kkd. Vestra.

Deila