Fréttir

Hálfleiksuppgjör Flaggskipsins

Körfubolti | 21.01.2019
Lið Flaggskipsins eftir frækin sigur á Grundarfirði eftir tvær framlengingar.
Lið Flaggskipsins eftir frækin sigur á Grundarfirði eftir tvær framlengingar.

Nú er Íslandsmótið hálfnað hjá Flaggskipinu og því ekki úr vegi að fara yfir hálfleikstölur.

Liðið er sem stendur jafnt Hrunamönnum og Þór Akureyri-b í 4-6. sæti í 3. deildinni með 6 stig eftir 7 leiki. Pance Ilievski og félagar í ÍR-b eru svo í 3. sæti með 8 stig en eiga leik til góða og mæta Hrunamönnum næstkomandi föstudag.

Fjögur efstu liðin fara í úrslitakeppnina í vor en eins og alþjóð veit hlaut Flaggskipið silfrið á síðustu leiktíð.

Stýrimaður Flaggskipsins, Baldur Ingi Jónasson, hefur skorað 116 stig í öllum keppnum og leiðir liðið í skorun í ár líkt og í fyrra. Þau verða þó líklegast ekki fleiri á þessu tímabili því Baldur varð fyrir því óláni að rífa hásin í leik liðsins síðastliðinn laugardag. Baldur er hins vegar þrjóskur með eindæmum og því þorum við ekki að útiloka að hann sjáist hoppandi um á einum fæti á vellinum, skjótandi þriggja stiga körfum. Jóhann Jakob Friðriksson kemur næstur með 70 stig og á því möguleika á að komast fram úr Baldri ef hann heldur dampi út tímabilið. Helgi Snær Bergsteinsson er svo í þriðja sæti með 65 stig og er allur að koma til eftir brokkgenga byrjun og gæti ógnað Jóhanni og Baldri með stigakóngstitilinn ef hann heldur áfram sama dampi.

Baldur Ingi leiðir liðið einnig í þristum skoruðum með 31 slíkum, eða 4,4 að meðaltali í leik. Þess má geta að hinir 20 leikmennirnir sem hafa leikið fyrir Flaggskipið í vetur hafa sett samtals til samans 41 þrist. Næstur Baldri kemur Guðmundur Auðun Gunnarsson sem er með 11 þrista eftir einungis 2 leiki en hann var á skotskónum í sínum fyrsta leik með Flaggskipinu á helginni og setti niður 9 þriggja stiga körfur.

Baldur Ingi er ekki hættur á topplistunum því hann er einnig með flest hitt víti eða 21 talsins. Hann er þó við botninn í skoruðum tveggja stiga körfum en hann hefur afrekað að skora eina slíka í vetur, væntanlega eftir að hafa stigið óvart á línuna í þriggja stiga skoti. Jóhann Jakob leiðir hins vegar liðið í tveggja stiga körfum með 20 stykki enda með öllu óstöðvandi undir körfunni.

Það kemur líklegast engum á óvart að Stígur Berg Sophusson leiðir liðið í villum. Það kemur hins vegar talsvert á óvart að þær eru ekki nema 19.

Rauða Þruman Helgi Bergsteinsson hefur fiskað flest víti í vetur eða 29 talsins. Hann hefur einnig klikkað á flestum eða 13.

Þrír leikmenn hafa sett niður öll víti sín í vetur, þeir Guðmundur Auðun (4/4), Sveinn Rúnar Júlíusson (4/4) og Sturla Stígsson (2/2). Næstir kkoma Baldur Ingi Jónasson með 80,8% vítanýtingu (21/26) og sjálfur kapteinn Flaggskipsins, Birgir Örn Birgisson með 71,4% nýtingu (10/14)

Leikjahæstir eru svo Aleksandar Tasev, Baldur Ingi Jónasson og Stígur Berg Sophusson með 7 leiki. Baldur og Aleks höfðu einmitt tekið þátt í öllum leikjum vetrarins þangað til á sunnudaginn þegar annar sat hjá vegna meiðsla og hinn vegna veikinda.

Deila